- Auglýsing -
- Viggó Kristjánsson, landsliðsmaður í handknattleik og leikmaður Leipzig í Þýskalandi, er meiddur á fingri og ríkir af þeim sökum töluverð óvissa um þátttöku hans í landsleikjunum við Færeyinga sem fram fara í Laugardalshöll á föstudag og laugardag. Miðasala fer fram á Tix.is.
- Jóhannes Berg Andrason, leikmaður FH, og Kristófer Máni Jónasson, úr Haukum, tóku þátt í æfingu A-landsliðsins í gær. Jóhannes og Kristófer voru á meðal leikmanna U21 árs landsliðs karla sem hafnaði í þriðja sæti á heimsmeistaramótinu sem fram fór í sumar.
- Bjarte Myrhol var í gær ráðinn þjálfari norska úrvalsdeildarliðsins Runar til þriggja ára. Þetta er fyrsta starf Myrhol á sviði þjálfunar eftir að hann lagði skóna á hilluna fyrir tveimur árum eftir afar góðan feril. Myrhol steig sín fyrstu skref sem leikmaður með hinu liði liðinu í Sanderfjord sem einfaldlega kallast Sandefjord. Má líkja þessari ráðningu við að uppalinn FH-ingur tæki við þjálfun Hauka eða öfugt.
- Wesley Pardin markvörður PAUC og samherji Kristjáns Arnar Kristjánssonar, Donna, hefur samið við Nimes frá og með næstu leiktíð. Pardin hefur verið markvörður PAUC frá 2017 og var þar áður í níu ár markvörður Toulouse. Pardin hefur verið einn fremsti markvörður Frakklands um árabil og m.a. átta sæti í franska landsliðinu.
- Erick Mathé tekur við þjálfun franska liðsins Montpellier næsta sumar þegar Patrice Canayer lætur af störfum eftir hafa verið þjálfari liðs félagsins í 30 ár. Mathé hefur síðustu sex ár verið þjálfari Chambéry en var þar áður aðstoðarmaður Canayer hjá Montpellier um þriggja ára skeið.
- Ekkert verður af því að dansk/þýski landsliðsmaðurinn Aaron Mensing gangi til liðs við Füchse Berlin á næsta sumri eins og vonir stóðu til. Samningur á milli Mensing og Berlínarliðsins var nánast tilbúinn þegar forráðamenn Berlínarliðsins kipptu að sér höndum, að sögn danskra fjölmiðla. Mensing gekk til liðs við GOG í Danmörku í sumar á eins árs samningi að lokinni tveggja ára vist hjá Flensburg sunnan megin við landamæri Danmerkur og Þýskalands.
- Auglýsing -