„Það var aldrei spurning í mínum huga að halda áfram hjá Telekom Veszprém úr því að mér stóð það til boða,“ sagði Bjarki Már Elísson landsliðsmaður í handknattleik við handbolta.is en hann hefur skrifað undir nýjan tveggja ára samning við ungverska meistaraliðið eins og fram kom m.a. á handbolti.is í gær.
„Snemma á tímabilinu buðu þeir [stjórnendir Veszprém) mér samning. Fjölskyldunni þótt það vera besti kosturinn í stöðunni að vera áfram hjá félaginu og komast meðal annars hjá flutningum á næsta sumri,” sagði Bjarki en kona hans fæddi annað barn þeirra í haust.
„Til viðbótar þá hefur mér gengið mjög vel með liðinu og því var þetta heldur ekki nein spurning út frá því sjónarmiði,“ sagði Bjarki Már Elísson ennfremur í svari við fyrirspurn handbolta.is.
Hlé hefur verið gert á keppni í ungversku 1. deildinni fram í byrjun febrúar vegna Evrópumótsins í Þýskalandi í næsta mánuði. Ungverjar verða með Íslendingum í riðli á mótinu ásamt landsliðum Svartfellinga og Serba. Fáir samherjar Bjarka eru í ungverska landsliðinu því Veszprémliðið er að litlum hluta byggt upp á Ungverjum.
Snorri tilkynnir EM hópinn eftir helgi
Snorri Steinn Guðjónsson landsliðsþjálfari karla í handknattleik tilkynnir á mánudaginn landsliðshópinn sem hann ætlar að taka með á mótið. Bjarki Már verður vafalaust í þeim hópi. Til stóð að Snorra birti hópinn í dag en vegna verkfalls flugumferðarstjóra til viðbótar við slæmt veður seinkaði heimkomu framkvæmdastjóra og markaðsstjóra HSÍ frá heimsmeistaramótinu í Danmörku um sólarhring. Þar af leiðandi var blaðamannafundi Snorra Steins frestað fram yfir helgi.