- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Stutt jólafrí hjá handboltafólki í Svíþjóð

Tryggvi Þórisson leikmaður IK Sävehof. Mynd/Guðmundur Svansson
- Auglýsing -

Handknattleiksmenn í sænsku úrvalsdeildinni í karla- og kvennaflokki fengu ekki langan tíma til þess að slaka á yfir jólin því strax í dag var blásið til leiks í 15. umferð deildarinnar með þremur leikjum þar sem íslenskir handknattleiksmenn komu við sögu. Sextándu umferð verður síðan lokið fyrir áramót. Fyrst að henni lokinni verður gert hlé á keppni í efstu deild karla þegar kemur að undirbúningi sænska landsliðsins fyrir titilvörnina á Evrópumótinu í Þýskalandi í næsta mánuði. 

Styrktu stöðu sína

Tryggvi Þórisson og samherjar í Sävehof héldu  áfram að styrkja stöðu sína í efsta sæti sænsku úrvalsdeildarinnar. Þeir unnu Önnereds frá Gautaborg, 37:31, á heimavelli í Partille. Tryggvi skoraði ekki mark í leiknum en tók talsvert þátt í varnarleik liðsins sem var marki yfir í hálfleik, 18:17. 

Sigur í Eskilstuna

Arnar Birkir Hálfdánsson og liðsmenn Amo HK gerðu það gott í heimsókn til Eskilstuna. Þeir lögðu Guif, 32:29. Þeir voru með yfirhöndina í leiknum frá upphafi til enda. Þar á meðal, 17:13, þegar fyrri hálfleikur var að baki. 

Arnar Birkir skoraði fimm mörk og best að segja ekki meira um það. 

Amo hafði sætaskipti við HK Karlskrona sem tapaði illa í heimsókn til Hammarby í Stokkhólmi, 33:24. Amo og Karlskrona sitja  í 10. og 11. sæti með 12 stig hvort en 14 lið eiga sæti í deildinni. 

Þorgils sá rautt

Hvorki Ólafur Andrés Guðmundsson né Þorgils Jón Svölu Baldursson skoruðu mark fyrir Karlskrona að þessu sinni. Sá síðarnefndi var aðsópsmikill í vörninni og var vikið af leikvelli þrisvar sinnum og fékk að lokum rautt spjald sjö mínútum fyrir leikslok við þriðju brottvikningu.

Dagur Sverrir Kristjánsson er úr leik vegna meiðsla.

Phil Döhler var í marki Karlskrona frá upphafi til enda leiksins ef undan eru skilin tvö vítaköst sem félagi hans spreytti sig á að verja. Döhler varði 12 skot, 28%, auk þess sem hann skoraði eitt mark. 

Stöðuna er að finna hér með fleiri stöðutöflum í evrópskum handknattleik. 

Tap hjá Bertu

Berta Rut Harðardóttir og hennar liðsfélagar í Kristianstad HK töpuðu í heimsókn sinni til Partille þar sem þær mættu IK Sävehof í úrvalsdeild kvenna í dag, 37:33. Þetta var fyrsti  leikur beggja liða eftir að þráðurinn var tekinn upp í deildinni eftir þátttöku sænska landsliðsins á HM sem lauk um miðjan mánuðinn. 

Berta Rut skoraði ekki mark í leiknum í dag. Kristianstad HK situr í 6. sæti deildarinnar með 10 stig að loknum 10 leikjum. 

Stöðuna í úrvalsdeild karla og kvenna í Svíþjóð er að finna hér ásamt stöðutöflum í fleiri deildum í evrópskum handknattleik.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -