- Auglýsing -
- Kristín Aðalsteinsdóttir var sæmd stórkrossi ÍR á uppskeruhófi félagsins í fyrradag. Kristín hefur í þrjá áratugi unnið sjálfboðaliðastarf fyrir handknattleiksdeild ÍR og slær ekki slöku við. Kristín hlaut silfurmerki ÍR árið 2000 og gullmerkið 2004. Hún var í fyrra tilnefnd sem sjálfboðaliði ársins hjá Reykjavíkurborg.
- Esbjerg og Nykøbing Falster (NFH Nyk) leika í dag til úrslita í dönsku bikarkeppninni í kvennaflokki í Blue Water Dokken íþróttahöllinni í Esbjerg. Nykøbing Falster (NFH Nyk) vann Viborg, 27:24, í undanúrslitum í gær og Esbjerg lagði Odense Håndbold, 36:32, í hinni viðureign undanúrslita.
- Stefan Kretzschmar fyrrverandi landsliðsmaður Þjóðverja og núverandi íþróttastjóri Füchse Berlin sagði í hlaðvarpsþætti á dögunum að uppi væri orðrómur um að ungverska stórliðið Veszprém hafi gert Barcelona tilboð í danska markvörðinn Emil Nielsen upp á tvær milljónir evra, um 300 milljónir króna.
- Veszprém sagði í tilkynningu í gær að orð Kretzschmar ættu sér enga stoð í raunveruleikanum. Félagið hafi ekki gert tilboð í markvörðinn. „1. apríl er ekki runninn upp, Stefan Kretzschmar,“ sagði m.a. í tilkynningu Telekom Veszprém sem óskar eftir að að Kretzschmar dragi orð sín til baka.
- Kretzschmar segist aðeins hafa sagt að um orðróm væri að ræða og hann hafi tekið það skýrt fram. Hann hafi ekki fullyrt eitt eða neitt og þurfi þar af leiðandi ekki að draga í land. Stefnir jafnvel í áframhaldandi þjark á milli ungverska liðsins og Þjóðverjans litríka.
- Auglýsing -