Ásbjörn Friðriksson, fyrirliði FH, var skiljanlega ekki sáttur við tapið fyrir Val 33:30, í Kaplakrika í Olísdeildinni í gær þegar handbolti.is hitti hann að máli í leikslok. „Á heildina litið voru Valsmenn sterkari en framan af lékum við ágætlega en vorum ekki nógu góðir í vörninni í síðari hálfleik. Um það munaði verulega,“ sagði Ásbjörn og benti réttilega á að FH-liðið fékk á sig 19 mörk í síðari hluta leiksins.
FH var komið með þriggja marka forskot undir lok fyrri hálfleiks, 13:10, og virtist vera að ná góðum tökum á leiknum þegar m.a. tvö vítaköst fóru í súginn, nokkuð sem reyndist dýrt því Valsliðið sneri við blaðinu og kom forskoti FH niður í eitt mark fyrir lok hálfleiksins, 15:14.
„Við hefðum þurft að standa okkur betur á þessum kafla leiksins og halda þeim aðeins lengur í burtu frá okkur,“ sagði Ásbjörn og bætti við. „Þegar við virkilega þurftum á vörninni að halda þá brást hún. Valsmenn voru sterkari og náðu að sigla sigrinum að landi, því miður,“ sagði Ásbjörn Friðriksson, leikmaður FH, í samtali við handbolta.is í Kaplakrika í gærkvöld.