- Auglýsing -
- Odense Håndbold er deildarmeistari í úrvalsdeild kvenna í handknattleik í Danmörku. Liðið hefur unnið allar 23 viðureignir sínar í deildinni fram til þessa. Síðast í gær vann Odense Håndbold lið Silkeborg-Voel, 34:25, og hefur átta stiga forskot þegar þrír leikir eru eftir. Deildarmeistarar síðustu ára, Team Esbjerg, getur jafnað Odense Håndbold að stigum en þar sem Óðinsvéa-liðið stendur betur að vígi í innbyrðis viðureignum er ekki möguleiki við Esbjerg-liðið að hirða deildarmeistaratitilinn á endasprettinum.
- Þjálfari Odense Håndbold er Norðmaðurinn Ole Gustav Gjekstad sem tók við af Þóri Hergeirssyni sem þjálfari norska kvennalandsliðsins í upphafi árs. Gjekstad hættir hjá Odense Håndbold í sumar og snýr sér eingöngu að störfum fyrir norska landsliðið.
- Franski handknattleiksmaðurinn Luka Karabatic segir ástæðu þess að hann hætti, að margra mati óvænt, með franska karlalandsliðinu fyrir áramót, vera einfalda. Eftir 15 ár með landsliðinu vilji hann hleypa yngri leikmönnum að borðinu. Um ástæðu þess af hverju hann valdi að hætta eftir leik í nóvember en ekki að loknum Ólympíuleikana í sumar sagði Karabatic einnig verið einfalda. Hann hafi ekki viljað segja skilið við landsliðið eftir tapleik heldur sigurleik. Luka er yngri bróðir Nikola Karabatic sem er að mörgum er álitinn besti eða einn besti handknattleiksmaður sögunnar.
- Slóvenski landsliðsmaðurinn Aleks Vlah er sagður fara frá danska meistaraliðinu Aalborg Håndbold í sumar og ganga til liðs við Indurtria Kielce í Póllandi. Vlah var á sínum tíma fenginn til danska liðsins til þess að fylla skarð Arons Pálmarssonar. Í sumar kemur Þjóðverjinn Juri Knorr til Álaborgarliðsins auk þess sem Sander Sagosen bættist í hópinn fyrir nokkrum viku. Þar með er hætt við að hlutverk Vlah dragist saman en hann hefur verið afar öflugur með danska liðinu á undanförnum tveimur árum.
- Pósturinn í Færeyjum hefur ákveðið að gefa út tvö ný frímerki með myndum af landsliðfólkinu Elias Ellefsen á Skipagøtu og frænku hans Jana Mittún. Gríðarlegur áhugi er fyrir handknattleikslandsliðunum í Færeyjum vegna frábærs árangurs á síðustu árum.
- Auglýsing -