Handknattleiksþjálfarinn Herbert Müller rann í skap eftir tap liðs hans, Thüringer HC, fyrir HB Ludwigsburg í þýsku 1. deildinni um síðustu helgi með eins marks mun, 23:22, í Þýringalandi. Sakaði hann m.a. dómarana um að draga taum meistaraliðsins, HB Ludwigsburg. „Við vorum sjö á móti níu í 60 mínútur,“ sagði Müller m.a. í blaðamannfundi sem haldinn var í keppnishöllinni strax að leik loknum. Sagði hann dómgæsluna hafa verið til skammar og beindi orðum sínum til eftirlitsmannsins og lét að því liggja að hann hafi beint blinda auganu að frammistöðu dómaranna.
Þýska handknattleikssambandið hefur ákveðið að sekta Müller fyrir framkomu sína og orð þau er hann lét falla. Hann sleppur við leikbann sem mörgum hefur komið á óvart. Ekki er gefið upp hversu há sektin er. Müller hefur tvær vikur til þess að taka ákvörðun um áfrýjun.
Hjó á báðar hendur
Müller hellti úr skálum reiði sinnar svo um munaði og hjó á báðar hendur, jafnt að dómurunum og andstæðingunum sem hann sagði hafa úr fimmtíusinnum meiri tekjum yfir að ráða en hans lið þyrfti ekki á aðstoð dómarana að halda. Síðar dró Müller í land þegar honum rann mesti móðurinn og sagði hafa átt við fimmfaldan mun. Stjórnandi blaðamannafundarins og félagsmaður í Thüringer HC vissi ekki í hvorn fótinn hann átti að stíga meðan Müller lét gamminn geisa.
Ekki á hverjum degi
Skapbræði Müllers, sem er þrautreyndur og sigursæll þjálfari, hefur vakið mikla athygli Þýskalandi en einnig í grannlöndum enda harla óvenjulegt að þjálfarar í Þýskalandi láti móðann mása á jafn óheflaðan hátt og Müller gerði.
Áhorfendur sýndu löngutöng
Xenia Smits landsliðskona Þýskalands og leikmaður HB Ludwigsburg var afar ósátt við framkomu stuðningsmanna Thüringer HC sem margir hverjir sýndu henni og leikmönnum Ludwigsburg löngutöng í tíma og ótíma í leiknum. „Ég geri meiri væntingar til áhorfenda hér en að þeir sýni leikmönnum löngutöng,“ sagði Smits á blaðamannfundinum þar sem Müller hafði látið móðinn mása.
Hætt er við að uppákoman í Salza-Halle í Þýringalandi eigi eftir að draga frekari dilk á eftir sér.