Valur er í góðri stöðu eftir tveggja marka tap fyrir MSK IUVENTA Michalovce frá Slóvakíu í fyrri undanúrslitaleik liðanna í Evrópubikarkeppninni í handknattleik kvenna í Michalovce í Slóvakíu í dag, 25:23. Síðari viðureign liðanna fer fram í N1-höll Valsara á Hlíðarenda eftir viku. Með góðum stuðningi er ljóst að Valur á möguleika á brjóta blað í sögu kvennahandknattleiks hér á landi að viku liðinni.
Valsliðið lék afar vel í síðari hálfleik í dag eftir að hafa verið í klemmu eftir fyrri hálfleikinn þegar liðið var undir, 14:8. MSK IUVENTA Michalovce skoraði sjö mörk gegn einu á síðustu 10 mínútum fyrri hálfleik. Leikmenn Vals létu erfiða stöðu ekki slá sig út af laginu. Vörn var snúið í sókn og hafist handa við að vinna upp forskot MSK IUVENTA Michalovce jafnt og þétt. Það tókst þegar Elísa Elíasdóttir jafnaði metin, 22:22, þegar fjórar mínútur voru til leiksloka. Hlutirnir féllu aðeins með heimamönnum á allra síðustu mínútu, m.a. skoraði liðið sitt 25. mark á síðustu sekúndu.
Hafdís Renötudóttir átti stórleik í marki Vals, varði 17 skot. Fleiri leikmenn léku vel og er liðið til alls líklegt eins áður áður segir.
Sjá einnig: Við erum svo sannarlega á lífi fyrir síðari hálfleikinn
Í hinni viðureign undanúrslita Evrópbikarkeppninnar vann Conservas Orbe Zendal Bm Porrino frá Spáni liðsmenn tékkneska liðið Hazena Kynzvart, 31:28, í Porrino á Spáni. Hazena Kynzvart, sem vann Hauka í átta liða úrslitum var tveimur mörkum yfir í hálfleik, 15:13. Síðari leikurinn verður í Cheb á laugardaginn.
Mörk Vals: Þórey Anna Ásgeirsdóttir 7, Lovísa Thompson 6, Sigríður Hauksdóttir 3, Thea Imani Sturludóttir 2, Elín Rósa Magnúsdóttir 2, Hildur Björnsdóttir 1, Ásdís Þóra Ásgeirsdóttir 1, Elísa Elíasdóttir, 1.
Varin skot: Hafdís Renötudóttir 17, 40,4%.
Mörk MSK IUVENTA Michalovce: Veronika Habánková 5, Aline Isabel Bieger 4, Patrícia Wollingerová 4, Olga Perederiy 3, Dorotoa Bacenkova 2, Emma Lukácová 2, Jelena Knezevic 2, Alena Dvoršcáková 1, Emilia Kowalik 1, Iryna Kompaniiets 1.
Varin skot: Iryna Yablonska-Bobal 13, 41,9% – Dragana Petkovska 1, 16,6%.
Gangur leiksins: 0:1, 4:1, 4:4, 6:5, 7:6, 7:7, 11:7, 11:8, 14:8, 15:8, 15:10, 16:10, 16:14, 17:14, 17:15, 18:16, 20:19, 21:19, 22:20, 22:22, 24:22, 24:23, 25:23.
Handbolti.is fylgdist með framvindu leiksins hér fyrir neðan í textalýsingu.