- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

ÓL: Sterkir Egyptar sendu Þjóðverja heim

Egyptinn Mohammad Sanad fagnar en Johannes Bitter markvörður Þýskalands veit ekki sitt rjúkandi ráð. Mynd/EPA
- Auglýsing -

Þýska landsliðið undir stjórn Alfreð Gíslasonar getur farið að pakka niður föggum sínum til heimfarar frá Japan eftir tap fyrir Egyptum í átta liða úrslitum handknattleikskeppni Ólympíuleikanna í Tókýó í dag, 31:26. Egyptar leika við Frakka í undanúrslitum á fimmtudaginn. Þeir hafa þegar náð betri árangri en nokkru sinni fyrr á Ólympíuleikum en þetta er í fyrsta skipti í sögunni sem egypskt landslið og reyndar afrískt landslið nær undanúrslitum á ÓL.


Egypska landsliðið lék afar vel í leiknum frá upphafi til enda. Sóknarleikurinn var frábær þar sem lausnir voru fyrir hendi við varnarleik Þjóðverja. Varnarleikurinn var sterkur auk þess sem Karim Hendawy fór á kostum í markinu og var með 41% markvörslu meðan markverðir þýska liðsins virtust ekki vita sitt rjúkandi ráð.


Þýska landsliðið átti undir högg að sækja frá byrjun. Það skoraði aðeins eitt af fyrstu sex mörkum leiksins. Segja má að upphafskaflinn hafi gefið tóninn fyrir það sem á eftir kom. Staðan var 16:12, í hálfleik, Egyptum í vil. Það var alveg sama hvað Þjóðverjar reyndu að gera. Egyptar voru með svör við flestu. Þýska liðið náði að minnka muninn í þrjú mörk í síðari hálfleik, 19:16, en var aldrei líklegt til þess að snúa taflinu við. Til þess lék egypska liðið of vel.

Það verður fróðlegt að sjá hvernig Frakkar bregðast við líkamlega sterkum en um leið afar tæknilega góðu egypsku liði í undanúrslitaleiknum á fimmtudag.

Ali Zein, eftirmaður Arons Pálmarssonar hjá Barcelona, og hinn gamalreyndi Yahia Omar voru markahæstir í egypska liðinu. Þeir skoruðu fimm mörk hvor. Mohammad Sanad var næstur með fjögur mörk eins og hornamaðurinn Yehia Elderaa.


Johannes Golla og Julius Kühn skoruðu sex mörk hvor og voru markahæstir í þýska liðinu. Marcel Schiller var næstur með fimm mörk.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -