Frakkar leika við Svía í undanúrslitum handknattleikskeppni kvenna á Ólympíuleikunum í Tókýó á föstudaginn. Frakkar unnu afar öruggan sigur á heimsmeisturum Hollands, 32:22, í átta liða úrslitum í dag.
Amandine Leynaud, markvörður Frakka, dró tennurnar úr hollenska landsliðinu í leiknum. Hún varði 22 skot og var með 51% markvörslu.
Leynaud var með sýningu í markinu með stórbrotinni frammistöðu, þeirri allra bestu sem markvörður hefur sýnt í kvennakeppninni í handknattleik á leikunum til þessa. Í framhaldinu fylgdu samherjar hennar með. Þeir fóru á kostum og skoruðu m.a. 19 mörk í fyrri hálfleik. Frakkar voru með átta marka forskot að loknum fyrri hálfleik.
Segja má að þá þegar hafi úrslitin verið ráðin. Hollenska liðið komst hvorki lönd né strönd í síðari hálfleik.

Franska landsliðið er þar með komið á kunnulegar slóðir. Það fékk silfurverðlaun á ÓL fyrir fimm árum og einnig á EM í desember. Þá unnu Frakkar gull á HM 2017 og EM 2019.
Laura Flippers skoraði sex mörk og var markahæst í franska liðinu. Pauletta Foppa var næst með fimm mörk.
Angela Malestein var markahæst hjá Hollendingum með fimm mörk.