„Við tökum umspilssætinu og búum okkur vel undir það sem okkur bíður þar,“ segir Patrekur Jóhannesson þjálfari Stjörnunnar í samtali við handbolta.is eftir víst var orðið eftir leiki lokaumferðar Olísdeildar kvenna í gærkvöld að Stjarnan hafnaði í næst neðsta sæti. Undanúrslit umspilsins taka við hjá Stjörnunni og leikir við Víking. Sá fyrsti verður 13. apríl í Hekluhöllinni í Garðabæ.
Ekkert gefið
„Við verðum að sýna fram á það í umspilinu að við eigum að vera í Olísdeildinni,“ sagði Patrekur og bætti við ekkert væri á hinn bóginn gefið í umspilskeppninni.
„Víkingar lék við Gróttu í bikarnum og töpuðu með einu marki. Við höfum einnig leikið æfingaleik við Aftureldingu sem er Grill 66-deildinni og þekkjum aðeins styrkleika liðanna. Við verðum að standa okkur,“ segir Patrekur.
Stjarnan stóð í Valsliðinu í fyrri hálfleik í viðureign liðanna á Hlíðarenda í gær í síðustu umferð Olísdeildar. Aðeins var þriggja marka munur í hálfleik, 15:12. Deildarmeistarar Vals voru mun öflugri í síðari hálfleik og unnu með 11 marka mun.
Kraftur og þor
„Ég vil hrósa stelpunum fyrir leikinn í kvöld, ekki síst fyrri hálfleikinn þegar kraftur og þor var í þeim. Í síðari hálfleik fjaraði aðeins undan enda er Valur með mjög sterkt lið. Við verðum hinsvegar áfram í baráttunni næstu vikur og njótum þess að spila handbolta,“ sagði Patrekur Jóhannesson þjálfari Stjörnunnar við handbolta.is.
Lengra viðtal við Patrek er í myndskeiði hér fyrir ofan.
Styttist í að umspil Olísdeildar kvenna hefjist
Grótta féll – Stjarnan í umspil – ÍBV í 6. sæti – Valur deildarmeistari