- Auglýsing -
- Elvar Örn Jónsson og Alexander Petersson mættu á sína fyrstu æfingu hjá þýska liðinu Melsungen í gær. Báðir gengu þeir til liðs við félagið í sumar. Guðmundur Þórður Guðmundsson, þjálfari, liðsins blés til fyrstu æfingar tímabilsins í gærmorgun eftir kærkomið sumarleyfi á Íslandi. Fjórði Íslendingurinn hjá félaginu, Arnar Freyr Arnarsson, var vitanlega einnig mættur til leiks.
- Hákon Daði Styrmisson skoraði fjögur mörk í fyrsta leik sínum í búningi Gummersbach er liðið mætti Arnóri Þór Gunnarssyni og félögum í Bergischer HC í æfingaleik. Gummersbach tapaði leiknum, 32:29. Elliði Snær Viðarsson skoraði eitt mark fyrir Gummersbach-liðið sem er þjálfað af Guðjóni Val Sigurðssyni.
- Bjarni Ófeigur Valdimarsson er kominn á fulla ferð með IFK Skövde í Svíþjóð. Hann skoraði fjögur mörk í sigri liðsins á Hammarby IF, 30:23, í gær. Bjarni Ófeigur gekk til liðs við Skövde í desember en vera hans hjá félaginu síðari hluta síðasta tímabils markaðist nokkuð af glímu við meiðsli.
- Bræðurnir Niklas og Magnus Landin, leikmenn danska landsliðsins, halda uppi heiðri þýska liðsins THW Kiel í úrslitaleik handknattleikskeppni Ólympíuleikanna í dag. Þýska liðið hefur allt frá úrslitaleiknum 1988 í Seúl a.m.k. verið með einn leikmann úrslitaleiks Ólympíuleika á launaskrá sinni.
- Mikkel Hansen þarf að skora sjö mörk í úrslitaleik Dana og Frakka í dag til þess að bæta metið yfir flest mörk skoruð á einum leikum. Kyung-shin Yoon frá Suður Kóreu á metið, 58 mörk á leikunum í Aþenu 2004. Króatinn Mirza Dzomba (2004) og Pólverjinn Karol Bielecki (2016) er næstir en þeir skoruðu 55 mörk hvor.
- Auglýsing -