Raúl Enterrios tryggði Spáni bronsverðlaun í handknattleikskeppni Ólympíuleikanna þegar hann innsiglaði sigur á Egyptum fimm sekúndum fyrir leikslok, 33:31, í Tókýó í morgun. Það var einstaklega vel við hæfi þar sem þessi þrautreyndi kappi lauk með sigurmarkinu áratuga löngum og sigursælum handknattleiksferli. Félagsliðaferli sínum lauk Enterrios í júní með því að vinna Meistaradeild Evrópu með Barcelona.
Þetta er í fjórða sinn í sögunni sem Spánverjar hreppa bronsverðlaun í handknattleikskeppni karla á Ólympíuleikum. Enterrios var með landsliðinu fyrir 13 árum þegar það vann einnig brons en áður hafa Spánverjar hlotið bronsverðlaun 1996 og 2000. Gull eða silfur hefur ekki fallið spænska karlalandsliðinu í skaut.
Egyptum tókst ekki að verða fyrsta Afríkuliðið til þess að vinna til verðlauna í handknattleikskeppni karla á Ólympíuleikum. Þeir voru að þessu sinni fyrsta landsliðið utan Evrópu frá leikunum 1988 til þess að ná í undanúrslit.
Leikurinn í morgun var hnífjafn og spennandi. Svo virtist sem Egyptar væru að þrotum komnir undir lok fyrri hálfleiks þegar þeir misstu móðinn og hleyptu spænska liðinu þremur mörkum fram úr sér.
Sú reyndist ekki vera raunin og eftir að hafa verið þremur mörkum undir, 19:16, í hálfleik þá voru leikmenn egypska landsliðsins fljótir að jafna metin í síðari hálfleik. Þegar síðari hálfleikur var hálfnaður var staðan jöfn, 25:25. Egyptar fengu tækifæri til þess að komast yfir en vopnin snerust í höndum þeirra hvað eftir annað. Spánverjar nýttu sér það og voru ívið sterkari á lokakaflanum.
Skarð var fyrir skildi að Ali Zein gat ekki teki þátt í leiknum vegna meiðsla en hann hefur verið einn besti leikmaður egypska landsliðsins á leikunum.
Aleix Gomez skoraði átta mörk úr níu tilraunum og var markahæstur í spænska liðinu. Antonio Garcia var næstur með sex mörk og Alex Dujshebaev var næstur með fimm mörk, þar af næst síðasta mark spænska liðsins í næst síðustu sókninni þegar allt stefndi í leiktöf. Enterrios skoraði fjögur mörk.
Mohammad Shebib skoraði sjö mörk fyrir egypska landsliðið eins og Ahmed Elahmar. Yahia Omar skoraði í sex skipti.
Úrslitaleikur Frakka og Ólympíumeistara Dana hefst klukkan 12 og verður í beinni útsendingu á RÚV2.