Íslenska landsliðið í handknattleik kvenna vann ísraelska landsliðið örugglega, 39:27, í fyrri viðureign þjóðanna í umspili heimsmeistaramótsins í kvöld. Staðan í hálfleik var 20:10. Eftir leiknum í kvöld að dæma þá á íslenska landsliðið greiða leið áfram á heimsmeistaramótið. Ísraelska liðið er ekkert sérstakt og átti í mestu vandræðum gegn öflugum varnarleik íslenska landsliðsins og stórleik Elínar Jónu Þorsteinsdóttur markvarðar í fyrri hálfleik.
Leikurinn fór fram við afar sérstakar aðstæður. Engir áhorfendur voru utan við starfsmenn leiksins og HSÍ, stjórnarmenn HSÍ. Einnig var hópur lögreglumanna inni í keppnissalnum og utan hans. Minnti stemningin um margt á covidtímana, alltént hversu fáir voru í salnum. Reyndar var leikin tónlist meðan síðari háfleikurinn stóð yfir sem var óvenjulegt.

Um tíma í síðari hálfleik var hart barið á neyðarútganga leikstaðar en þeir höfðu verið búnir undir að eitthvað gæti gengið á. Nokkrir tugir fólks var fyrir utan og mótmælti meðan á leiknum stóð.
Aðstæðurnar slógu leikmenn íslenska liðsins ekki út af laginu. Þær léku vel, ekki síst í vörninni auk þess sem fjöldi marka voru skoruð eftir hraðaupphlaup.

Mestur var munurinn 16 mörk í síðari hálfleik.
Rétt er að hrósa leikmönnum íslenska landsliðsins hversu vel þær léku við erfiðar aðstæður sem voru á leikstað til viðbótar það andrúmsloft sem ríkt hefur víða í þeirra garð síðustu daga.

Mörk Íslands: Þórey Anna Ásgeirsdóttir 8/2, Dana Björg Guðmundsdóttir 6, Thea Imani Sturludóttir 4, Katrín Anna Ásmundsdóttir 3, Elín Klara Þorkelsdóttir 3, Steinunn Björnsdóttir 3, Alfa Brá Hagalín Oddsdóttir 3, Lilja Ágústsdóttir 3, Rut Arnfjörð Jónsdóttir 3, Andrea Jacobsen 2, Díana Dögg Magnúsdóttir 1.
Varin skot: Elín Jóna Þorsteinsdóttir 12, 42,9% – Sara Sif Helgadóttir 2, 40%.
Handbolti.is fylgdist með leiknum í textalýsingu hér fyrir neðan.