Leikið verður til verðlauna í nótt og í fyrramálið, að íslenskum tíma, í handknattleikskeppni kvenna Ólympíuleikanna í Tókýó. Eftir tveggja vikna keppni og 36 leiki milli liða frá 12 þjóðum standa fjögur eftir sem berjast um verðlaunin. Eitt þeirra fjögurra fer tómhent heim eins og þau átta sem þegar hafa kvatt keppnina.
Vegna loka Ólympíuleikanna í Tókýó verða leikirnir tveir sem eftir eru fyrr á dagskrá en úrslitaleikir karla.
Rússar, þótt þeir keppi nú undir merkjum rússnesku ólympíunefndarinnar, eiga titil að verja frá síðustu leikum sem fram fóru í Ríó í Brasilíu fyrir fimm árum. Þá eins og nú er franska landsliðið andstæðingur landsliðsins úr hluta gamla Garðaríkis.
Norska landsliðið, undir stjórn Þóris Hergeirssonar, mætir sænska landsliðinu í viðureign um þriðja sæti.
Báða verðlaunaleikina verður hægt að sjá í beinni útsendingu RÚV.
Kl. 02.00 Noregur – Svíþjóð, RÚV2.
Kl. 06.00 Rússland – Frakkland – RÚV2.