Tryggvi Þórisson og liðsfélagar í IK Sävehof gerðu sér lítið fyrir og unnu Ystads IF HF í annarri viðureign liðanna í undanúrslitum sænsku úrvalsdeildarinnar í kvöld, 35:28. Leikið var í Partille. Staðan var jöfn að loknum fyrri hálfleik, 16:16.
Þar með er staðan jöfn í rimmu liðanna. Hvort lið hefur einn vinning.
Tryggvi skoraði ekki mark í leiknum. Færeyingurinn Óli Mittún fór kostum í liði Sävehof og skoraði m.a. 10 mörk.
Næsti leikur liðanna fer fram í Ystad á fimmtudaginn. Vinna þarf þrjá leiki til að komast í úrslit. Ystad-liðið tapaði aðeins þremur leikjum í úrvalsdeildinni í vetur og bar ægishjálm yfir andstæðinga sína.
Í hinni rimmu undanúrslita eigast við Hammarby og Helsingborg. Fyrrnefnda liðið vann fyrsta leikinn, 24:21. Næsta viðureign verður á heimavelli Hammarby annað kvöld. Helsingborg og Hammarby enduðu í sjötta og sjöunda sæti úrvalsdeildarinnar.