Flautumark Evu Jaspers tryggði Aldísi Ástu Heimisdóttur og samherjum sigur í framlengdri viðureign við Skuru, 34:33, á heimavelli í fyrsta leik liðanna í undanúrslitum úrslitakeppni sænsku úrvalsdeildarinnar í handknattleik í kvöld. Clara Petersson jafnaði metin fyrir Skuru 12 sekúndum fyrir leikslok, 33:33. Aldís Ásta og félagar létu það ekki slá sig út af laginu heldur nýttu sekúndurnar sem eftir voru til þess að tryggja sér sigurinn á síðustu sekúndu.
Aldís Ásta skoraði fjögur mörk að þessu sinni.
Jafnt var að loknum hefðbundnum 60 mínútna leik, 27:27.
Vinna þarf þrjá leiki til þess að komast í úrslit. Næst mætast liðin í Skuru á mánudaginn og ljóst er að mikið á eftir að ganga á í næstu leikjum liðanna ef taka má mið af viðureigninni í Skara í kvöld.
Naumt hjá IK Sävehof
Í hinni viðureign undanúrslitanna vann IK Sävehof lið Höörs HK H65, 26:25, á heimavelli, einnig í jöfnum og afar spennandi leik.
Elín Klara Þorkelsdóttir leikmaður Hauka gengur til liðs við IK Sävehof í sumar.