- Auglýsing -
- Ríflega 5.000 aðgöngumiðar hafa verið seldir í Arena Leipzig í kvöld þegar SC DHfK Leizpig undir stjórn Rúnars Sigtryggssonar tekur á móti Flensburg í þýsku 1. deildinni í handknattleik. Andri Már Rúnarsson verður í eldlínunni með SC DHfK Leizpig. Vonast heimamenn til að góður stuðningur veiti liðinu byr í seglin til að leggja Flensborgararliðið að þessu sinni.
- Talið er líklegt að spænski handknattleiksmaðurinn Julen Aguinagalde verði aðstoðþjálfari pólska landsliðsins í karlaflokki og starfi með Jota Gonzalez sem ráðinn var landsliðsþjálfari í vikunni til næstu þriggja ára. Aguinagalde, sem er nú íþróttastjóri Bidasoa Irún þekkir vel til í pólskum handknattleik eftir að hafa leikið í sjö ár með Industria Kielce, frá 2013 til 2020.
- Norski landsliðsmaðurinn Kent Robin Tønnesen hefur skrifað undir tveggja ára samning við Flensburg í Þýskalandi. Hann kemur til félagsins í sumar frá PSG í Frakklandi. Um leið leysir Tønnesen Hollendinginn Kay Smits af.
- Óvíst er hvað tekur við hjá Smits en hann hefur lengi verið hjartveikur. Fyrir vikið hefur Smits verið mikið frá keppni og alls ekki náð að sýna sitt rétta andlit á þeim árum sem hann hefur verið hjá Flensburg.
- Tønnesen þekkir vel til í þýska handknattleiknum eftir fjögurra ára veru hjá HSG Wetzlar og síðar með Füchse Berlin. Tønnesen hefur síðustu tvö ár leikið með PSG í París.
- Tom Kiesler, helsti varnarmaður Gummersbach, leikur ekkert meira með liðinu á tímabilinu. Eftir margra mánaða fjarveru vegna meiðsla mætti Kiesler aftur til leiks síðla í mars. Því miður fann hann fljótlega aftur fyrir meiðslum sem koma í veg fyrir frekari þátttöku hans í leikjum Gummersbach á þessari leiktíð.
- Króatíski landsliðsmaðurinn Ivan Martinovic meiddist á hné í undanúrslitaleik þýsku bikarkeppninnar á laugardaginn. Hann leikur ekki með Rhein-Neckar Löwen næstu vikur.
- Litáinn Karolis Antanavicius sem hefur gert það gott undir stjórn Hannesar Jóns Jónssonar hjá Alpla Hard síðustu fjögur ár hefur samið við GWD Minden í Þýskalandi. Antanavicius hefur skorað liðlega 100 mörk í austurrísku deildinni í vetur með deildarmeisturum Alpla Hard.
- Auglýsing -