Grunur er uppi um að Reynir Þór Stefánsson, einn helsti leikmaður Fram, hafi brákað rifbein undir lok viðureignar FH og Fram í fyrstu umferð undanúrslita Olísdeildar karla í handknattleik í gærkvöld. Reynir Þór fékk þungt högg á síðuna rétt áður en honum rann í skap með þeim afleiðingum að hann fékk rauða spjaldið fyrir að sparka í Birgi Má Birgisson leikmann FH. Sé Reynir Þór með brákað rifbein gæti hann verið úr leik í næstu leikjum Fram og FH sem væri mikið áfall fyrir Fram enda verið besti leikmaður liðsins í vetur.
Sé grunur manna réttur um að Reynir Þór hafi brákað rif er það áfall fyrir Fram í úrslitakeppninni. Alltént er óvíst með þátttöku hans í næstu viðureign Fram og FH í undanúrslitum Olísdeildar sem fram á að fara á mánudagskvöld í Lambhagahöllinni. Framari sem handbolti.is hafði samband við í dag var ekki bjartsýnn á þátttöku Reynis Þórs í næstu leikjum. Læknir á eftir að fara betur yfir málin.
Fram vann leikinn í gærkvöld, 27:24.
Uppfært: Við læknisskoðun er ljóst að Reynir Þór er óbrotinn en mjög aumur. Eins og kom fram í fréttinni ríkir óvissa um þátttöku hans í næstu leikjum Fram og FH.