Önnur umferð úrslitakeppni Olísdeildar kvenna fer fram í dag með tveimur viðureignum sem fram fara í Vestmannaeyjum og í Skógarseli í Breiðholti. Flautað verður til leiks í Eyjum klukkan 16 en stundarfjórðungi síðar í Skógarseli. ÍBV og ÍR verða að leggja andstæðinga sína í dag til þess að knýja fram oddaleiki annars eru leikmenn liðanna komnir í sumarleyfi frá kappleikjum meðan Haukar og Selfyssingar halda áfram keppni.
Selfoss vann ÍR, 31:27, í Sethöllinni á Selfoss á þriðjudagskvöld í fyrstu viðureign liðanna. Haukar lögðu lið ÍBV, 26:20, á Ásvöllum. Aðeins þarf að vinna tvo leiki til þess að komast áfram af fyrsta stigi úrslitakeppninnar yfir í undanúrslit þegar Valur og Fram mæta til leiks.
Komi til oddaleikja á milli Selfoss og ÍR annarsvegar og Hauka og ÍBV hinsvegar þá fara leikirnir fram á þriðjudaginn.
Báðir leikir dagsins verða sendir út á Handboltapassanum. Leikur ÍR og Selfoss verður ennfremur aðgengilegur í opinni dagskrá í sjónvarpi Símans. Framvindu leikjanna í textauppfærslu verður að finna á HBStatz.
Leikir dagsins
Olísdeild kvenna, úrslitakeppni, 2. umferð, leikir tvö:
Vestmannaeyjar: ÍBV – Haukar (0:1), kl. 16.
Skógarsel: ÍR – Selfoss (0:1), kl. 16.15.