Haukar eru komnir í undanúrslit úrslitakeppni Olísdeildar kvenna í handknattleik eftir annan sigur á ÍBV, 23:19, í fyrstu umferð úrslitakeppninnar í Vestmannaeyjum í dag. Haukar mæta Fram í undanúrslitum. Fyrsti leikurinn verður sennilega 26. apríl í Lambhagahöllinni, heimavelli Fram.
Eins og fyrri viðureign liðanna þá hafði ÍBV í fullu tré við Hauka í fyrri hálfleik. Þegar kom fram í síðari hálfleik þá kom styrkleiki Hauka betur í ljós. Elín Klara Þorkelsdóttir var frábær, skoraði sjö mörk og var með 11 sköpuð færi. Sara Sif Helgadóttir fór á kostum í markinu og var með 50% hlutfallsmarkvörslu þegar upp var staðið.
Haukar juku við forskot sitt í síðari hálfleik og voru með leikinn í höndum sínum þegar á leið, ekki síst vegna góðs varnarleiks og markvörslu.
ÍBV-liðið hefur þar með lokið keppni á Íslandsmótinu að þessu sinni. Þjálfaraskipti verða í sumar og uppstokkun á leikmannahópnum. Margir yngri leikmenn hafa fengið tækifæri á leiktíðinni.
Haukar halda hinsvegar áfram keppni og sýna væntanlega Fram-liðinu tennurnar í undanúrslitum hvar vinna verður þrjá leiki til þess að komast í úrslitum.
Mörk ÍBV: Birna Berg Haraldsdóttir 7/4, Birna María Unnarsdóttir 5, Britney Emilie Florianne Cots 3, Sunna Jónsdóttir 3, Dagbjört Ýr Ólafsdóttir 1.
Varin skot: Marta Wawrzykowska 14, 37,8%.
Mörk Hauka: Elín Klara Þorkelsdóttir 7/1, Sara Odden 5, Rut Arnfjörð Jónsdóttir 5, Thelma Melsted Björgvinsdóttir 2, Sonja Lind Sigsteinsdóttir 1, Birta Lind Jóhannsdóttir 1, Inga Dís Jóhannsdóttir 1, Alexandra Líf Arnarsdóttir 1.
Varin skot: Sara Sif Helgadóttir 17, 50% – Margrét Einarsdóttir 0.
Tölfræði leiksins hjá HBStatz.