Blomberg-Lippe með landsliðskonurnar Andreu Jacobsen og Díönu Dögg Magnúsdóttur innanborðs vann nauman sigur á Oldeburg, 23:22, í fyrsta leik liðanna í átta liða úrslitum þýsku 1. deildarinnar í handknattleik í kvöld. Leikið var á heimavelli Blomberg-Lippe. Næsta viðureign verður eftir viku en vinna þarf tvo leiki til að öðlast sæti í undanúrslitum.
Díana Dögg skoraði tvö mörk, skapaði eitt færi og vann einn ruðning. Andrea skoraði ekki en átti eina stoðsendingu og var með einn stolinn bolta í vörninni. Andrea var hörð í horn að taka í vörninni og var þrisvar vikið af leikvelli í tvær mínútur.
Margt benti til þess að Blomberg-Lippe ynni öruggan sigur. Liðið var með sex marka forskot eftir fyrri hálfleik, 14:8, og hafði yfirhöndina framan af síðari hálfleik. Leikmenn Oldenburg sóttu hart að á síðasta stundarfjórðungnum og segja má að Blomberg-Lippe-liðar hafi sloppið með skrekkinn.
Sandra tapaði
Sandra Erlingsdóttir og liðsfélagar í TuS Metzingen töpuðu á útivelli fyrir Borussia Dortmund, 32:28, en leikurinn var einnig liður í átta liða úrslitum úrslitakeppninnar í Þýskalandi. Staðan var jöfn eftir fyrri hálfleik, 14:14.
Sandra og félagar voru öflugri framan af viðureigninni en máttu gefa eftir þegar á leið gegn hinu sterka Dortmund-liði.
Næsta viðureign verður í Metzingen eftir viku.
Sandra skoraði ekki mark í leiknum.