- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Þrír naumir sigrar og eitt jafntefli í átta liða úrslitum

Leikmenn CSM Búkarest fagna sigrinum nauma á Esbjerg í dag. Ljósmynd/EPA
- Auglýsing -


Rúmenska handknattleikskonan Cristina Neagu fagnaði sigri í sínum síðasta heimaleik með CSM Búkarest í Meistaradeild Evrópu í dag þegar liðið lagði dönsku meistarana Esbjerg með eins marks mun, 30:29. Neagu ætlar að leggja skóna á hilluna í vor eftir að hafa verið ein fremsta handknattleikskona Evrópu síðasta hálfa annan áratuginn. Hvort sigurinn nægir Neagu og félögum til þess að komast í úrslitahelgi Meistaradeildarinnar skýrist næstu helgi þegar CSM sækir Esbjerg heim.

Reistad öflug að vanda

Henny Reistad var frábær í leiknum og skoraði 12 mörk fyrir Esbjerg. Hún hefur þar með skorað 134 mörk í Meistaradeildinni á leiktíðinni og er markahæst.

Emily Bölk að skora eitt af mörkum sínum fyrir FTC gegn Odense í dag. Ljósmynd/EPA

Toft reið baggamuninn

Evrópumeistarar Györ standa vel að vígi eftir eins marks sigur á Ludwigsburg, 25:24, í Þýskalandi í gær. Danski markvörðurinn Sandra Toft átti stórleik og var öðrum fremur á baki við nauman sigur. Toft varði 15 skot, 41%. Bruna de Paula var markahæst með sjö mörk. Viola Leuchter skoraði fimm mörk fyrir Ludwigsburg. Johanna Bundsen varð 14 skot, 37%.

Metz sterkara á útivelli

Metz hafði betur í uppgjöri frönsku liðanna í Bretagne, 29:26, og er þar með komið með annan fótinn í undanúrslit. Brest var öflugra framan af en frönsku meistararnir gáfu ekki sinn hlut eftir á lokakaflanum. Petra Vamos skoraði átta mörk fyrir Metz og Sarah Bouktit sex mörk.

Anna Vyakhireva skoraði átta mörk fyrir Brest og Méline Nocandy var með sjö mörk. Voru þær atkvæðamestar hjá Brest.

Veik von hjá Odense

Vonir Odense Håndbold um sæti í undanúrslitum Meistaradeildar Evrópu í fyrsta sinn glæddust ekki þegar liðið gerði aðeins jafntefli á heimavelli gegn ungverska lið FTC-Rail Cargo Hungaria, 27:27, í dag. Daria Dmitrieva jafnaði metin fyrir FTC sex sekúndum fyrir leikslok.

Helena Elver Hagesø skoraði átta mörk fyrir Odense. Katrine Lunde varði 11 skot í marki Odense, 32%.

Katrine Lunde markvörður Odense Handball fagnar í leiknum í dag. Ljósmynd/EPA

Antje Angela Malestein og Valeriia Maslova skoruðu sex mörk hvor fyrir FTC.

Brest Bretagne – Metz Handball 26:29 (15:14).
Ludwigsburg – Györ 24:25 (14:16).
CSM Búkarest – Esbjerg 30:29 (13:15).
Odense Håndbold – FTC 27:27 (14:12).

  • Síðari leikirnir fara fram næstu helgi.
  • Sigurliðin fjögur taka þátt í úrslitahelgi Meistaradeildar sem fram fer í Búdapest 31. maí og 1. júní.
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -