Óðinn Þór Ríkharðsson og liðsfélagar í svissneska meistaraliðinu Kadetten Schaffhausen unnu nauman sigur á HSC Suhr Aarau í fyrstu viðureign liðanna í undanúrslitum úrslitakeppninnar í A-deildinni í dag, 34:32, eftir framlengingu. HSC Suhr Aarau, sem hafnaði í fimmta sæti deildarinnar en Kadetten varð deildarmeistari, var tveimur mörkum yfir í hálfleik, 13:11.
Næsti leikur liðanna fer fram í Suhr á miðvikudagskvöld en vinna verður þrjár viðureignir til þess að öðlast sæti í úrslitum um meistaratitilinn við annað hvort HC Kriens-Luzern eða BSV Bern.
Óðinn Þór skoraði fimm mörk í sex skotum í leiknum í dag. Fjögur markanna skoraði landsliðsmaðurinn úr vítaköstum. Luka Maros var markahæstur með sjö mörk.
BSV Bern vann HC Kriens-Luzern í fyrsta leiknum, 38:37.