Afturelding jafnaði metin í úrslitum umspils Olísdeildar kvenna í handknattleik með öruggum sigri á Stjörnunni, 28:22, í annarri viðureign liðanna að Varmá í Mosfellsbæ. Staðan var jöfn í hálfleik. Næsti leikur liðanna fer fram í Hekluhöllinni í Garðabæ á þriðjudagskvöldið og hefst klukkan 19:30.
Eins og í fyrsta leik liðanna þá var varnarleikur Aftureldingar öflugur, ekki síst í síðari hálfleik þegar nokkuð dró af Stjörnuliðinu. Munurinn á leikjunum var hinsvegar sá að síðast var Stjarnan með sex marka forskot í hálfleik, 19:13, en að þessu sinni var staðan jöfn, 13:13. Stjarnan skoraði aðeins 9 mörk í síðari hálfleik að Varmá í dag meðan allt lék í lyndi hjá Aftureldingarliðinu sem tryggði sér öruggan sigur og fer með byr í seglum í Garðabæinn.
Stjarnan þarf að skoða sín mál fyrir framhaldið enda hefur liðið sæti í Olísdeildinni að verja.
Mörk Aftureldingar: Hulda Dagsdóttir 6, Lovísa Líf Helenudóttir 5, Áróra Eir Pálsdóttir 4, Katrín Helga Davíðsdóttir 4, Ragnhildur Hjartardóttir 3, Stefanía Ósk Engilbertsdóttir 3, Anna Katrín Bjarkadóttir 2, Susan Ines Gamboa 1.
Varin skot: Ingibjörg Gróa Guðmundsdóttir 9, Saga Sif Gísladóttir 6.
Mörk Stjörnunnar: Embla Steindórsdóttir 9, Anna Karen Hansdóttir 4, Eva Björk Davíðsdóttir 2, Guðmunda Auður Guðjónsdóttir 2, Hanna Guðrún Hauksdóttir 2, Rakel Dórothea Ágústsdóttir 2, Vigdís Arna Hjartardóttir 1.
Varin skot: Aki Ueshima 12, Hrafnhildur Anna Þorleifsdóttir 3.