Handknattleiksparið Sandra Erlingsdóttir og Daníel Þór Ingason hafa skrifað undir tveggja ára samning við handknattleiksdeild ÍBV. Þetta kemur fram í tilkynningu frá ÍBV handbolta á samfélagsmiðlum í dag.
Sandra og Daníel leika bæði í Þýskalandi um þessar mundir og hafa gert síðustu ár, Sandra með Tus Metzingen og Daníel með HBW Balingen-Weilstetten.
Sandra, sem verður 27 ára í júlí, er uppalin í Eyjum en hefur leikið með Füchse Berlin, Val og EH Aalborg auk ÍBV.
Daníel Þór, sem stendur á þrítugu, er fyrrverandi leikmaður Hauka og Vals auk þess að hafa leikið með Ribe-Esbjerg um árabil áður en hann gekk til liðs við Balingen-Weilstetten.
Bæði eiga þau einnig landsleiki fyrir Ísland og tekið þátt í stórmótum með landsliðunum. Daníel hefur leikið 39 A-landsleiki og Sandra 35 A-landsleiki.
„Um gríðarlegan styrk fyrir handknattleiksdeildina er að ræða og væntum við mikils af þeim og hlökkum til að sjá þau á parketinu í haust,“ segir í tilkynningu frá handknattleiksdeild ÍBV í dag.