- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Ætlum að vinna og gera það almennilega

Snorri Steinn Guðjónsson landsliðsþjálfari karla í handknattleik. Ljósmynd/Hafliði Breiðfjörð
- Auglýsing -


Sá hluti íslenska karlalandsliðshópsins sem er hér á landi, þjálfarar og starfsmenn, leggur af stað í dag áleiðis til Bosníu þar sem íslenska landsliðið mætir landsliði heimamanna í Sarajevo á miðvikudaginn kl. 17. Leikurinn er sá næst síðasti í undankeppni EM 2026 en lokaleikur Íslands verður gegn Georgíu í Laugardalshöll eftir viku.


Bosníumenn eru í þriðja sæti riðilsins eftir óvænt tap á heimavelli fyrir Georgíu í mars, 22:20.

Fyrri viðureign Íslands og Bosníu í undankeppninni lauk með sex marka sigri Íslands, 32:26, í Laugardalshöll 6. nóvember á síðasta ári.

Leikið af fullum þunga

Snorri Steinn Guðjónsson landsliðsþjálfari segir að þrátt fyrir að íslenska liðið sé öruggt um sæti í lokakeppni EM verði farið í leikinn í Sarajevo af fullum þunga með það að markmiði að vinna. Mikilvægt sé að vinna riðilinn og öðlast sem besta stöðu áður en dregið verður í riðla fyrir lokakeppnina í Herning 22. maí. Eins skipti miklu máli að halda áfram á sigurbraut á útivelli í undankeppni stórmóts.

Nýta hvert tækifæri

„Ég nálgast leikinn eins og aðra. Við ætlum að vinna og gera það almennilega. Þegar tækifærin til að koma saman eru fá þá skiptir hver æfing og hver leikur mjög miklu máli,“ sagði Snorri Steinn í samtali við handbolta.is áður en hann lagði af stað áleiðis til Bosníu.

Áfram á sömu braut

„Hingað til hefur undankeppnin verið góð hjá okkur. Liðið hefur verið einbeitt þegar við höfum komið saman. Mér finnst mikilvægt að við sýnum að við erum betri en liðin sem við erum að mæta hverju sinni. Til þessa höfum við gert það. Þess vegna skiptir máli að halda áfram á þeirri braut.“

Erfiðir heim að sækja

Snorri Steinn reiknar með að Bosníumenn mæti af miklum krafti í leikinn. Þeir eiga ennþá möguleika á að komast í lokakeppnina sem eitt af fjórum liðum sem hafna í þriðja sæti riðlanna sem kemst áfram.

„Bosníumenn eru erfiðir heim að sækja. Við höfum einhverntímann fundið fyrir því,“ sagði Snorri Steinn sem fyrirfram reiknaði með að Bosníumenn næðu öðru sæti í riðli Íslands.

Hittast í Vínarborg

Landsliðið kemur saman í Sarajevo á morgun mánudag. Einhverjir leikmenn koma ekki til borgarinnar fyrr en síðdegis á morgun vegna leikja á morgun. Flestir munu þó koma saman í Vínarborg fyrri partinn á morgun og ferðast saman þaðan til Sarajevo.

Snorri Steinn segir að skammur undirbúningur sé ekkert nýtt. Það sé gömul saga og ný og ekkert við að gera.

Reynum eitthvað nýtt

Snorri Steinn segir að leikirnir tveir sem framundan eru muni að einhverju leyti litast af því að íslenska liðið er öruggt um sæti í lokakeppni EM. Hann stefni á að reyna eitthvað nýtt eins og t.d. sást á vali hans á landsliðshópnum. Aðeins einn hægri hornmaður var t.d. valinn með fyrir augum að nýta Viggó meira í horninu og láta hann um leið leika í bakvörð í vörn.

Enga þvælu

„Við ætlum að þreifa á nokkrum nýjum atriðum án þess að um verði að ræða tilraunastarfsemi og þvælu. Ég vil sjá frammistöðu og gæði. Að einhverju leyti þá spilast þetta öðruvísi en ef við værum með bakið upp við vegg,“ sagði Snorri Steinn Guðjónsson landsliðsþjálfari karla í handknattleik.

Lengra viðtal við Snorra Stein er að finna í myndskeiði hér fyrir ofan.

A-landslið karla – fréttasíða.

Undankeppni EM karla “26: úrslit leikja og staðan

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -