Íslenska kvennalandsliðið í handknattleik, skipað leikmönnum 17 ára og yngri, gerði jafntefli við pólska landsliðið í sannkölluðum háspennuleik, 23:23, í lokaumferð B-riðils B-deildar Evrópumótsins í Klaipéda í Litáen í dag. Sannkallað stórmeistarajafntefli hjá efstu liðum riðilsins en bæði áttu möguleika á að tryggja sér sigurinn á síðustu sekúndunum.
Pólland hafnar þar með í efsta sæti á ívíð betri markatölu en íslenska liðið en bæði hafa þau sjö stig og leika til undanúrslita á laugardaginn. Spánn er öruggur áfram í undanúrslit úr A-riðli en baráttan um hitt sætið stendur á milli Finnlands og Norður Makedóníu sem eigast við síðar í dag.
Mikið gekk á síðustu mínútu leiksins í dag. Boltinn var dæmdur af íslenska liðinu þegar mínúta var til leiksloka. Pólverjar fóru í sókn, tóku leikhlé, en misstu boltann engu að síður þegar 20 sekúndur voru eftir af leiktímanum. Íslenska liði fór í sókn. Brotið var á Elísu Elíasdóttur og vítakast dæmt þegar 11 sekúndur voru til leiksloka. Lilja Ágústsdóttir skaut í slá úr vítakastinu. Pólska liðið óð fram leikvöllinn og þar sem einn leikmaður liðsins skaut í stöng á síðustu sekúndu. Niðurstaðan þar með jafntefli.
Staðan að loknum fyrri hálfleik var 13:13.
Íslensku stelpurnar hafa staðið sig frábærlega á mótinu fram til þessa. Leikið fjóra hörkuleiki og unnið þrjá og gert eitt jafntefli. Spilamennskan hefur verið stórskemmtileg á báðum endum leikvallarins og ljóst að mikil framtíð býr í þessum vaska hóp.
Inga Dís Jóhannsdóttir var valin besti leikmaður íslenska liðsins í leiknum.
Mörk Íslands: Lilja Ágústsdóttir 7, Elín Klara Þorkelsdóttir 3, Sara Dröfn Richardsdóttir 2, Inga Dís Jóhannsdóttir 2, Elísa Elíasdóttir 2, Tinna Sigurrós Traustadóttir 2, Þóra Björg Stefánsdóttir 1, Rakel Oddný Guðmundsdóttir 1, Embla Steindórsdóttir 1, Brynja Katrín Benediktsdóttir 1, Katrín Anna Ásmundsdóttir 1.
Ingunn María Brynjarsdóttir var frábær í markinu og varði 13 skot.