Danir unnu stórsigur á Norðmönnum, 39:26, í Evrópubikarkeppni karla í handknattleik í Stafangri í kvöld. Á sama tíma mörðu Frakkar sigur á Svíum í sömu keppni í Gautaborg, 33:32. Í Evrópbikarkeppni landsliða taka þátt þau landslið sem ekki eru með í undankeppni Evrópumóts karla.
Bæði norska og danska landsliðið voru án nokkurra sterkra leikmanna í leiknum í Stafangri. Ekki virtist fjarvera Mathias Gidsel hafa mikil áhrif á danska landsliðið en Norðmenn söknuðu mjög Tobias Grøndahl og Sander Sagosen sem báðir eru meiddir. Heimsmeistarar Danmerkur léku sér að norska liðinu og voru komnir með átta marka forskot í hálfleik, 18:10.
Emil Madsen skoraði sjö mörk fyrir danska landsliðið og Emil Jakobsen skoraði sex mörk.
Magnus Rød skoraði sjö fyrir norska landsliðið.
Skoruðu þrjú síðustu mörkin
Nicolas Tournat skoraði sex mörk fyrir Frakka í naumum sigri á Svíum í Gautaborg, 33:32. Frakkar skoruðu þrjú síðustu mörk leiksins. Elohim Prandi var næstur með fimm mörk.
Sebastian Karlsson var atkvæðamestur Svía með fimm mörk. Simon Jeppsson lék sinn fyrsta landsleik í fimm ár. Hann skoraði fjögur mörk í fimm skotum. Felix Claar skoraði fjögur mörk.
Frakkar hafa unnið allar fimm viðureignir sínar í Evrópubikarnum. Danir hafa nýtt mótið til þess að gefa fleiri leikmönnum tækifæri til þess að spreyta sig. Þeir hafa sex stig, Svíar fjögur stig en Norðmenn eru án stiga. Því hefur verið fleygt síðustu daga að farið sé að hitna undir Jonas Wille landsliðsþjálfara Noregs.
Í síðustu umferð keppninnar á sunnudaginn taka Danir á móti Svíum og Norðmenn sækja Frakka heim.