Aldís Ásta Heimisdóttir og samherjar hennar í Skara HF eru í frábæra stöðu í úrslitarimmunni við IK Sävehof um sænska meistaratitilinn eftir annan sigur í röð í kvöld, 27:22, þegar leikið var í Partille Arena, heimavelli Sävehof. Á Skara HF þar með möguleika á að tryggja sér meistaratitilinn í fyrsta sinn á heimavelli á mánudaginn í þriðju viðureign liðanna.
Aldís Ásta skoraði fimm mörk í átta skotum og gaf tvær stoðsendingar.
Aldís og félagar í Skara HF voru með yfirhöndina í leiknum frá byrjun til enda. Varnarleikurinn var afar góður, svo að flest vopn voru slegin úr höndum leikmanna Sävehof. Staðan að loknum fyrri hálfleik var 13:11, Skara í hag.
Reikna má með að mikil eftirvænting ríki í Skara fyrir þriðju viðureigninni á mánudaginn. Troðfullt var í íþrótthúsinu í bænum á þriðjudaginn þegar fyrsta viðureignin fór fram. Komust færri að en vildu.
Skara HF hefur aldrei orðið sænskur meistari. Liðið var í fyrsta sinn deildarmeistari í vor og leikur nú í fyrsta sinn til úrslita.
Stakkaskipti
Liðið hefur unnið 21 af síðustu 22 viðureignum eftir þjálfaraskipti voru í desember. Skal engan undra að Rasmus Overby var valinn þjálfari tímabilsins í úrvalsdeildinni á dögunum þótt hann hafi aðeins verið hálfan fimmta mánuð í starfi enda hafa stakkaskiptin á liðinu verið hreint ótrúleg undir hans stjórn.