„Það er lágmarkskrafa af okkur hálfu að vinna leikinn og ljúka undankeppni EM með fullu húsi stiga. Ég segi það með fullri virðingu fyrir georgíska landsliðinu sem leikið hefur vel í undakeppninni og er verðskuldað komið áfram í lokakeppnina,“ segir Snorri Steinn Guðjónsson landsliðsþjálfari í handknattleik karla um viðureignina við Georgíu í Laugardalshöll á morgun. Flautað verður til leiks klukkan 16.
„Leikurinn snýst fyrst um okkur og að við höldum áfram að stíga framfaraskref sem miðast að því að við verðum góðir í janúar þegar lokakeppni EM fer fram,“ segir Snorri Steinn sem reiknar með að halda áfram að þróa leik liðsins. „Ég reikna með að þetta verði blanda af ýmsu á sunnudaginn.
Ég vil sjá einbeitt lið og vonandi troðfulla höll,“ segir Snorri Steinn.
Gekk vel – höldum áfram
Snorri Steinn gerði ákveðnar tilraunir í leiknum við Bosníu ytra á miðvikudaginn. Þá helst að láta Viggó Kristjánsson leika í hægra horni í sókninni en á móti leysti hann Ómar Inga af í bakvarðarstöðunni í vörninni. Ómar Ingi var á meðan hornamaður í vörn. Snorri Steinn sagði þessa breytingu hafa komið vel út og væntanlega verður haldið áfram að þróa hana. Að sama skapi verður þessi breyting ekki endilega til þess að hann ætli sér að fara með einn hægri hornamann á stórmót og hafa þá Viggó sem annan kost í þá stöðu.
„Þetta er eitthvað sem við getum kannski gripið til þegar mikið álag er á stórmótum. Þetta er hinsvegar eitthvað sem maður prófar ekki þegar komið er á stórmót, leikir í undanfara stórmóta er betri vettvangur til þess að reyna eitthvað nýtt svo ekki sé rennt í blint í sjóinn þegar á hólminn verður komið,“ segir Snorri Steinn sem ætlar að halda áfram að þróa þennan hluta leiksins.
Snorri Steinn segir Bosníuleikinn hafa verið ágætan. „Hann var betri en ég hélt. Ég sá það þegar ég horfði á hann aftur og fór að klippa saman atriði úr honum. Mér fannst við slappir í vörninni í fyrri hálfleik en við löguðum margt í síðari hálfleik, ekki síst atriði sem hafði verið í lagi í leikjunum á undan.“
Lengra viðtal við Snorra Stein er í myndskeiði hér fyrir ofan.
Undankeppni EM karla “26: úrslit leikja og staðan
A-landslið karla – fréttasíða.