Isma Martínez þjálfari BM Porriño, sem Valur mætir í úrslitaleik Evrópubikarkeppni kvenna í handknattleik á Spáni í dag, segir í viðtali við Mundo Deportivo að hraðinn geti orðið lykill síns liðs að sigri í leiknum. Martínez segir lið sitt hafa meiri breidd en Valur sem geti skipt máli þegar út í hraðann og líkamlega erfiðan leik verður komið.
Viðureign BM Porriño og Vals hefast klukkan 15 en liðin mætast öðru sinni á Hlíðarenda eftir viku.
„Valur er með frábært lið. Helsti styrkleiki liðsins felst í að það gerir einföldu atriðin mjög vel. Um er að ræða sókndjarft lið og afar beinskeytt. Við eigum okkar möguleika. Meðal annars höfum við yfir að ráða breiðari hópi leikmanna. Það er nokkuð sem við getum nýtt okkur,“ segir Martínez í lauslegri þýðingu úr Mundo Deportivo.
Uppselt er á leikinn í dag sem fram fer í Pabellon Municipal í Porriño, skammt frá Vigo. Tvöþúsund aðgöngumiðar hafa verið seldir. Reiknað er með að 60 til 70 stuðningsmenn Vals verði í áhorfendahópnum.
Óvissa vegna meiðsla
Óvissa ríkir um þátttöku, Mica Casasola, argentínskrar landsliðskonu. Hún tognaði á ökkla fyrir nokkrum dögum. Martínez segir það vera bónus fyrir liðið komi í ljós á síðustu stundu að Casasola geti tekið þátt.
BM Porriño tapaði illa fyrir BM Elche í fyrsta leik liðanna í átta liða úrslitum úrslitakeppni spænsku 1. deildarinnar á miðvikudagskvöld, 32:21. Martínez segist vonast til að lið hans hafi jafnað sig eftir leikinn en 20 slæmar mínútur í síðari hálfleik urðu liðinu að falli á útivelli.
Grikkirnir Ioannis Fotakidis og Charalampos Kinatzidis dæma leikinn. Eftirlitsmaður kemur frá grannríkinu, Portúgal.
Leikur BM Porriño og Vals hefst klukkan 15 og verður sjónvarpað á RÚV. Einnig verður textalýsing á handbolti.is.
Evrópubikarkeppni kvenna – fréttasíða.