- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Ánægður með einbeitinguna sem strákarnir mættu með

Snorri Steinn Guðjónsson landsliðsþjálfari karla í handknattleik fylgist með leiknum í dag. Ljósmynd/Hafliði Breiðfjörð
- Auglýsing -


„Ég fékk einbeitt lið sem gaf tóninn strax í upphafi. Þannig voru leikirnir í riðlinum að undanskildum fyrsta leiknum í nóvember. Varnarlega vorum við flottir allan tímann eins og á HM í janúar. Helst er ég óánægður með færanýtinguna. Hún var ekki nægilega góð í báðum hálfleikum að þessu sinni,“ sagði Snorri Steinn Guðjónsson landsliðsþjálfari í handknattleik karla í samtali við handbolta.is eftir sigur, 33:21, á Georgíu í Laugardalshöll síðdegis í lokaumferð undankeppni EM karla í handknattleik.

Hefur truflað mig áður

„Færanýting hefur truflað mig áður vegna þess að hún hefur orðið okkur að falli á stórmótum. Þetta er eitthvað sem menn verða að laga. Við höfum farið yfir þetta því þegar kemur inn á stórmót þá megum við ekki leyfa okkur slaka nýtingu,“ sagði Snorri Steinn ennfremur.

Varnarleikurinn er eitt af jákvæðu atriðunum í leik íslenska landsliðsins, ekki aðeins í dag, heldur í undanförnum leikjum.

Snorri Steinn segir visst sjálfstraust vera komið í vörnina sem sé afar jákvætt. Það skilar sér í fleiri hraðaupphlaupum sem einnig er af hinu góða.

„Eins er margt gott að ganga upp hjá okkur í sóknarleiknum þótt enn vanti upp á nýtingu færa,“ sagði Snorri Steinn og bætti við að afar mikilvægt hafi verið að fá Ómar Inga Magnússon inn í sóknarleikinn eftir fjarveru vegna meiðsla.

Fór snemma í sjö á sex

Snemma leiks í dag brá Snorri Steinn á það ráð að leika með sjö manna sóknarleik um tíma, nokkuð sem kom á óvart en þó kannski ekki þar sem hann hafði sagt fyrir leikina við Bosníu og Georgíu að hann ætlaði sér að tefla fram nýjungum og æfa liðið saman til þess að takast á við eitthvað nýtt til þess að eiga upp í erminni þegar komið verður á stærra svið, lokamót, þar sem e.t.v. skapast ekki sama rými fyrir tilraunir.

Gætum þurft að grípa til þessa ráðs

„Það segir sig sjálft að á einhverjum tímapunkti gætum við þurft að grípa til þessa ráðs á stórmóti þegar mikið verður undir. Þess vegna fannst mér rétt að reyna þetta og sjá hvort þessi leikaðferð geti hentað okkur,“ sagði Snorri Steinn.

Vann alla leikina

Íslenska landsliðið í karlaflokki hefur ekki oft lokið undankeppni stórmóts með fullu húsi stiga eins og nú. E.t.v. segja einhverjir að íslenska liðið hafi verið heppið með riðil en á móti kemur að ekki eru mörg ár síðan jafntefli var gert við Grikki á útivelli í undankeppni stórmóts, jafntefli sem íslenska liðið mátti þakka fyrir að ná. Leikir hafa tapast í Tékklandi og Norður Makedóníu og gegn fleiri landsliðum.

Ánægður með einbeitinguna

„Ég lagði áherslu á strax í upphafi að við ættum að vinna alla leikina. Það hafði verið umræða uppi um að við ættum til að skilja eftir stig hér og þar á útivelli. Ég er þess vegna einna ánægðastur með þá einbeitingu sem leikmenn hafa komið með inn í hvern landsleikjaglugga. Það getur verið snúið að gíra sig upp í leikina. Oft er ekki nema ein æfing fyrir leik. Strákanir hafa gert þetta vel, byrjað alla leikina af krafti,” sagði Snorri Steinn Guðjónsson landsliðsþjálfari sem segist hafa nóg að gera þótt A-landsliðið komið ekki aftur saman fyrr en í byrjun nóvember.

Lengra viðtal við Snorra Stein er að finna í myndskeiði hér fyrir ofan.

Undankeppni EM karla “26: úrslit leikja og staðan

A-landslið karla – fréttasíða.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -