„Það var frábært að fá að koma inn á og skora mitt fyrsta landsliðsmark fyrir framan alla þessa áhorfendur,“ sagði Reynir Þór Stefánsson sem lék í dag sinn fyrsta A-landsleik þegar landsliðið lagði georgíska landsliðið, 33:21, í lokaumferð undankeppni EM 2026 í Laugardalshöll. Reynir Þór lék með síðustu 10 mínúturnar og gaf strax tóninn með marki og bætti öðru við áður en yfir lauk. Einnig lét hann til sín taka í vörninni.
„Það var bara gæsahúð þegar Snorri sagði mér að gera mig kláran í að koma inn á völlinn,“ sagði Reynir Þór ennfremur og bætti við að hann hafi búist við því eins og leikurinn þróaðist að fá tækifæri síðustu mínúturnar.
„Snorri sagði mér þegar ég fór inn á völlinn að ef ég myndi ekki skjóta á markið þá yrði ég ekki aftur valinn. Þannig að ég varð að taka fyrsta tækifæri,“ sagði Reynir Þór léttur í bragði í samtali við handbolta.is
Reynir Þór sagði það hafa verið lærdómsríkt að koma inn í landsliðshópinn, fara með til Bosníu og kynnast leikmönnum landsliðsins sem hann hafi ekki þekkt mikið.
Í mörg horn að líta á næstunni
Framundan er úrslitaeinvígi með Fram gegn Val um Íslandsmeistaratitilinn áður en farið verður með U21 árs landsliðinu á heimsmeistaramótið sem fram fer í Póllandi frá 18. til 29. júní.
Reynir Þór var einn öflugasti leikmaður Evrópumóts 20 ára landsliða síðasta sumar. Hann er svo sannarlega að stimpla sig inn í hóp fremstu handknattleiksmanna landsins aðeins 19 ára gamall.
Lengra viðtal við Reyni Þór er í myndskeiði hér fyrir ofan.
Undankeppni EM karla “26: úrslit leikja og staðan
A-landslið karla – fréttasíða.