Haukar halda áfram að styrkja kvennalið sitt fyrir næstu leiktíð. Í morgun var opinberað að Embla Steindórsdóttir hafi skrifað undir tveggja ára samning við félagið. Hún kemur til Hauka frá Stjörnunni.
Embla er tvítug og hefur síðustu tvö ár leikið með Stjörnunni en lék upp yngri flokka með HK. Einnig kom Embla ung inn í meistaraflokk HK áður en hún gekk til liðs við Stjörnuna sumarið 2023. Embla sem er miðjumaður að upplagi en getur leyst allar stöður fyrir utan.
Embla hefur leikið upp öll yngri landsliðin og var m.a. í u18 og u20 ára landsliðunum sem náði frábærum árangri á HM 2022 og 2024.
Embla var í æfingahóp A-landsliðsins í mars. Hún varð fjórða markahæst í Olísdeildinni í vetur með 123 mörk.
Embla er önnur konan sem gengur til liðs við Hauka á nokkrum dögum. Aníta Eik Jónsdóttir, fyrrverandi samherji Emblu hjá HK, samdi við Hauka í síðustu viku. Ljóst er að forráðamenn Hauka ætla ekki að slá slöku við þótt Elín Klara Þorkelsdóttir kveðji félagið í sumar og gangi til liðs við IK Sävehof í Svíþjóð.