Aldís Ásta Heimisdóttir varð í kvöld sænskur meistari í handknattleik kvenna þegar lið hennar, Skara HF, vann IK Sävehof, 31:28, í fjórðu viðureign liðanna í úrslitum sem fram fór í Partille. Þetta er um leið í fyrsta skipti sem Skara HF verður sænskur meistari en gengi liðsins hefur verið ævintýralegt síðustu mánuði með 22 sigra í 24 leikjum.
Framlengja varð leikinn í kvöld vegna þess að jafnt var, 24:24, eftir venjulegan leiktíma. Skara-liðið var mikið öflugra í framlengingu og vann hana, 7:4.
Aldís Ásta, sem framlengdi á dögunum samning sinn við félagið til eins árs, skoraði eitt mark í kvöld en gaf sex stoðsendingar. Henni var einu sinni vikið af leikvelli.
Skara HF varð einnig deildarmeistari í fyrsta sinn í vor. Liðið vann úrslitarimmuna við IK Sävehof, 3:1, í vinningum talið.