„Við gátum ekki beðið um betri byrjun á einvíginu. Við spiluðum hrikalega vel,“ sagði Einar Jónsson þjálfari Fram skiljanlega glaður í bragði eftir sigur liðsins á Val, 37:33, í fyrstu viðureigninni um Íslandsmeistaratitilinn. Leikið var á Hlíðarenda. Næsta viðureign fer fram á mánudagskvöld á heimavelli Fram.
„Maður þarf að spila vel til þess að vinna Val. Við vorum frábærir,“ sagði Einar sem hafði búið sína menn vel undir að leikurinn yrði hraður eins og raun varð á. Sóknarleikur Fram var frábær, svo að varnarmenn Vals náðu sér aldrei á strik.
„Í 50 til 55 mínútur spiluðum við hrikalega góðan handbolta. Við þurfum annað eins á mánudaginn í leik tvö. Ég veit að Framarar eiga eftir að fylla Lambhagahöllina. Okkar markmið verður að halda áfram þar sem frá var horfið í kvöld og leika annan frábæran leik,“ sagði Einar Jónsson þjálfari Fram í samtali við handbolta.is á Hlíðarenda.
Lengra viðtal við Einar er í myndskeiði hér yfir ofan.
Framarar fóru á kostum og eru komnir með yfirhöndina