- Auglýsing -

„Snýst um að fara út á dúkinn og láta vaða“

- Auglýsing -


„Það er engu um það logið að þessi leikur og fyrri viðureignin úti sé stærsti viðburður sem ég hef tekið þátt í,“ segir Ágúst Þór Jóhannsson þjálfari Vals sem stýrir Val í síðari úrslitaleik Evrópubikarkeppni kvenna í handknattleik gegn spænska liðinu BM Porriño í N1-höllinni á Hlíðarenda á morgun, laugardag, klukkan 15.

Miðasala á úrslitaleikinn er á stubb.is.

Stemningin stigmagnast

„Stemningin er að stigmagnast hjá okkur sem lýkur með að við verðum tilbúin í úrslitaleik í Evrópubikarkeppni,“ segir Ágúst Þór ennfremur.

Fyrri viðureign Vals og BM Porriño lauk með jafntefli ytra á síðasta laugardag, 29:29.

Úrslitaleikurinn á morgun er vafalaust einn stærsti boltaíþróttaviðburður sem farið hefur fram hér á landi og nokkuð sem íþróttaáhugafólk getur ekki látið framhjá sér fara.

Þurfum að styrkja varnarleikinn

Ágúst leggur áherslu á að styrkja varnarleikinn til þess að fá fleiri hraðaupphlaup og einnig betri markvörslu. „Við eigum inni á þessu sviði, að mínu mati, og munum þar af leiðandi gera örlítlar áherslubreytingar sem vonandi skilar sér. Ef það verður í lagi er ég vongóður um að við náum í góð úrslit,“ segir Ágúst Þór sem er með reynt lið í höndunum sem tekist hefur á við stórleiki.

Ná heilsteyptri frammistöðu

„Þetta snýst um að fara út á dúkinn á morgun og láta vaða. Svo verður bara að koma í ljós hvert það þróast og fer. Við verðum heilt yfir að ná heilsteyptri frammistöðu. Ef það tekst er ég sannfærður um góða niðurstöðu,“ segir Ágúst Þór Jóhannsson þjálfari Vals sem leikur úrslitaleik í Evrópubikarkeppni á heimavelli á morgun klukkan 15, fyrst íslenskra félagsliða.

Lengra viðtal við Ágúst Þór er að finna í myndskeiði hér fyrir ofan.

Evrópubikarkeppni kvenna – fréttasíða.

Þúsund miðar seldir

Miðasala hefur gengið afar vel. Í hádeginu í dag höfðu selst um 1.000 miðar en annað eins af miðum er enn til sölu.
Valur lofar frábærri stemningu og veglegri dagskrá auk leiksins sem hægt að kynna sér hér fyrir neðan.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -