„Ég er ennþá að átta mig á þessu,“ sagði Thea Imani Sturludóttir nýkrýndur Evrópubikarmeistari í handknattleik í samtali við handbolta.is eftir að Valur vann BM Porrino, 25:24, í síðari úrslitaleik Evrópubikarkeppninnar í N1-höllinni á Hlíðarenda. Thea skoraði 25. og síðasta markið sem fleytti Val yfir erfiðan hjalla í lokin.
Thea Imani og félagar í Val eru fyrsta íslenska kvennaliðið sem vinnur Evrópukeppni félagsliða.
Allt small saman
„Við höfum gert nokkrar tilraunir við að komast langt í þessari keppni á síðustu árum. Á þessu tímabilið small allt saman. Að baki þessa er gríðarlega mikil vinna. Okkur hefur tekist að spila okkur mjög vel saman,“ sagði Thea Imani og sagði að miklvægt hafi verið að ná þessum áfanga núna því nokkrar breytingar verða á Valsliðinu fyrir næstu leiktíð. Leikmenn halda á vit nýrra ævintýra auk þess sem breytingar verða á þjálfarateymi liðsins.
Mikilvægur stuðningur
„Það var geggjað að við skyldum ná þessu núna. Enn skemmtilegra var að vinna á heimavelli fyrir framan alla þessa áhorfendur. Þeir gáfu okkur mikla orku. Bara vá, þetta er svo gaman,“ sagði Thea Imani Sturludóttir Evrópubikarmeistari með Val.
Lengra viðtal við Theu Imani er í myndskeiði hér fyrir ofan.
Evrópubikarkeppni kvenna – fréttasíða.