„Mjög mikilvægur og góður sigur í einvíginu í kvöld. Vonandi heldur þetta bara svona áfram,“ sagði Breki Hrafn Árnason markvörður Fram glaður í bragði eftir annan sigur liðsins á Val í úrslitum Íslandsmóts karla í handknattleik í Lambhagahöllinni í kvöld, 27:26.
Fram getur þar með tryggt sér Íslandsmeistaratitilinn á fimmtudagskvöld á Hlíðarenda í þriðju viðureign liðanna.
„Ef við mætum ekki leiks þá getur illa farið því Valur er með drullugott lið,“ sagði Breki Hrafn sem er með báða fætur á jörðinni þrátt fyrir tvo sigurleiki í upphafi einvígisins.
Spila vel þegar mér líður svona
Breki Hrafn átti frábæra innkomu í upphafi síðari hálfleiks og varði alls átta skot í hálfleiknum. „Ég var bara orðinn þyrstur í að komast inn á. Þegar tækifærið gafst þá leið mér vel. Þegar mér líður vel þá spila ég svona,“ sagði Breki Hrafn.
Litlu mátti muna á síðustu sekúndum að Valsmenn jöfnuðu metin. Bjarni í Selvindi átti skot í stöng Fram-marksins þegar tíu sekúndur voru eftir. Hurð skall svo sannarlega nærri hælum við mark Breka Hrafns.
Hurð skall nærri hælum
„Það munaði svo sannarlega litlu,“ sagði Breki Hrafn sem sá ekki boltann og gat engum vörnum við komið. Hann fékk síðan boltann í hendurnar og mörgum þótt hann taka of mörg skref áður en hann kom boltanum á samherja.
Var bara í blakkáti
„Ég vil ekki meina að þetta hafi ekki verið skref. Ég var bara í blakáti á þessum tímapunkti og get ekkert sagt um þetta. En það voru ekki dæmd skref á mig,“ sagði Breki Hrafn léttur í bragði að vanda.
Lengra viðtal við Breka Hrafn er að finna í myndskeiði hér fyrir ofan.
Eins marks tap er bæði blóðugt og leiðinlegt