Valur vann fyrstu viðureignina við Hauka í úrslitum Olísdeildar kvenna í handknattleik í kvöld, 30:28, þegar leikið var í N1-höllinni á Hlíðarenda í kvöld. Valur var þremur mörkum yfir í hálfleik, 14:11. Næsti leikur liðanna verður á Ásvöllum á föstudaginn. Vinna þarf þrjá leiki til þess að vera Íslandsmeistari en Valur hefur unnið titilinn tvö síðustu ár.
Valsliðið var sterkara í leiknum frá upphafi til enda og vann sannfærandi sigur. Ekki var að sjá að sigur liðsins í Evrópbikarkeppninni á laugardaginn sæti í leikmönnum. Haukar voru skrefi á eftir frá byrjun. Kannski var hálfsmánaðahlé frá kappleikjum oft langt þegar öllu er á botninn hvolft.
Í hvert skipti sem Haukar áttu möguleika á að jafna metin snerust vopnin í höndum leikmanna.
Miklu munaði um að Hafdís Renötudóttir markvörður Vals var í miklum ham meðan markverðir Hauka náðu sér lítt á strik. Segja má að stóri munurinn á liðunum í kvöld hafi legið í markvörslunni
Varnarleikur Vals var öflugur í fyrri hálfleik en opnaðist meira í síðari hálfleik. Sóknarleikurinn gekk vel lengst af.
Haukar gerðu atlögu undir lokin og freistuðu þess að leika maður á mann í vörninni. Þótt aðeins saxaðist á fjögurra til fimm marka forskot Vals undir lokin þá var sigurinn aldrei í verulegri hættu.
Óreyndur dómari á úrslitaleik
Ekki verður skilið við leikinn án þess að setja spurningamerki við það að láta lítt reyndan dómara dæma úrslitaleik kvenna ásamt reyndum dómara eins og gert var í kvöld. Engum er greiði gerður með því að mati þess sem þetta ritar.
Þeir reyndustu hafa dæmt til þessa
Hin síðari ár hafa reyndustu dómararnir dæmt úrslitaleiki karla og kvenna í Olísdeildinni. Hvernig á því stendur að brugðið er út af þeim vana í kvöld er óskiljanlegt. Gera verður þá kröfu til þeirra sem með dómaramálin fara að þeir setji reyndustu og bestu dómarana á úrslitaleikina, hvort sem um kappleiki kvenna eða karla er að ræða.
Úrslitaleikir um Íslandsmeistaratitilinn eiga ekki að vera vettvangur til að sjóa óreynda dómara, jafnvel þótt þeir séu spyrtir saman við reyndan dómara eins og gert var í kvöld. Tilaunastarfssemi í dómgæslu á ekki heima í úrslitakeppni Olísdeildar þótt dómarar kunni að vera efnilegir.
Mörk Vals: Thea Imani Sturludóttir 7, Lovísa Thompson 6, Elín Rósa Magnúsdóttir 6, Þórey Anna Ásgeirsdóttir 4/4, Ásthildur Jóna Þórhallsdóttir 4, Hildigunnur Einarsdóttir 2, Sigríður Hauksdóttir 1.
Varin skot: Hafdís Renötudóttir 18, 40% – Elísabet Millý Elíasardóttir 0.
Mörk Hauka: Elín Klara Þorkelsdóttir 7/5, Alexandra Líf Arnarsdóttir 6, Sara Odden 4, Rakel Oddný Guðmundsdóttir 4, Rut Arnfjörð Jónsdóttir 4, Ragnheiður Ragnarsdóttir 1, Sara Katrín Gunnarsdóttir 1, Birta Lind Jóhannsdóttir 1.
Varin skot: Sara Sif Helgadóttir 5, 17,9% – Elísa Helga Sigurðardóttir 1, 12,5%.
Tölfræði leiksins hjá HBStatz.
Handbolti.is var á Hlíðarenda og fylgdist með leiknum í textalýsingu hér fyrir neðan.