Íslenska landsliðið leikur í C-riðli í Porsche Arena í Stuttgart í riðlakeppni heimsmeistaramóts kvenna í lok nóvember. Dregið var í dag í Hertogenbosch í Hollandi og verða mótherjar íslenska landsliðsins þýska landsliðið, serbneska landsliðið og landslið Úrúgvæ sem var sú þjóð sem dróst úr fjórða og neðsta styrkleikaflokki í riðli íslenska liðsins.
Leikir íslenska landsliðsins verða 26., 28. og 30. nóvember. Ef marka má niðurröðun á Wikipedia-síðu HM kvenna þá byrjar íslenska landsliðið á leik við Þjóðverja. Þar á eftir tekur við leikur gegn Serbíu áður en að viðureigninni við Paragvæ kemur sunnudaginn 30. nóvember.
Þrjú lið komast áfram úr C-riðli í milliriðla sem leiknir verða í Dortmund 2., 4. og 6. desember.
Komist Ísland í milliriðil verður leikið í Westfalenhallen í Dortmund gegn liðum úr D-riðli. Í þeim riðli verða Svartfjallaland, Spánn, Færeyjar og Paragvæ.
HM kvenna fer fram í Hollandi og Þýskalandi frá 26. nóvember til 14. desember þegar heimsmeistarar verða krýndir. Frakkar unnu heimsmeistaratitilinn 2023.

Ef íslenska liðið rekur lestina í riðlinum tekur það þátt í keppninni um forsetabikarinn Hertogenbosch í Hollandi 4., 6. og 8. desember.
Ísland var í þriðja styrkleikaflokki, einu hærra en fyrir HM 2023, og fékk Þýskaland úr fyrsta flokki og Serbíu úr öðrum flokki.
Riðlaskipting og leikstaðir:
| A-riðill (Rotterdam): | B-riðill (Hertogenbosch): |
| Danmörk | Ungverjalandi |
| Rúmenía | Sviss |
| Japan | Senegal |
| Króatía | Íran |
| C-riðill (Stuttgart): | D-riðill (Trier): |
| Þýskaland | Svartfj.land |
| Serbía | Spánn |
| Ísland | Færeyjar |
| Úrúgvæ | Paragvæ |
| E-riðill (Rotterdam): | F-riðill (Hertogenbosch): |
| Holland | Frakkland |
| Austurríki | Pólland |
| Argentína | Túnis |
| Egyptaland | Kína |
| G-riðill (Stuttgart): | H-riðill (Trier): |
| Svíþjóð | Noregur |
| Brasilía | Angóla |
| Tékkland | Suður Kórea |
| Kúba | Kasakstan |



