- Auglýsing -
- Ómar Ingi Magnússon skoraði sigurmark SC Magdeburg þegar liðið vann Eisenach á heimavelli í þýsku 1. deildinni í handknattleik í gærkvöld, 33:32. Markið var eitt af tíu sem Ómar Ingi skoraði í leiknum sem var sá annar hjá liðinu í vikunni. Fimm marka sinna skoraði Ómar Ingi úr vítaköstum. Hann átti tvær stoðsendingar.
- Gísli Þorgeir Kristjánsson skoraði tvö mörk og gaf fjórar stoðsendingar í sigri Magdeburg í gær. Þýski landsliðsmaðurinn Marko Grgic skoraði 15 mörk fyrir Eisenach, þar af fjögur úr vítaköstum.
- SC Magdeburg er í þriðja sæti þýsku 1. deildarinnar með 47 stig eftir 29 leiki. Liðið er þremur stigum á eftir Füchse Berlin og MT Melsungen sem leikið hafa einum leik fleira. Magdeburg á fimm leiki eftir áður en deildarkeppninni lýkur.
- Meistaratitillinn blasir við Óðni Þór Ríkharðssyni og samherjum í Kadetten Schaffhausen eftir annan sigur þeirra á BSV Bern, 29:27, í Gümligen Mobiliar Arena í Bern í gær. Óðinn Þór skoraði fimm mörk í Bern. Kadetten vantar einn sigur í viðbót til þess að vinna meistaratitilinn. Næsta viðureign liðanna verður á sunnudaginn í Schaffhausen.
- Axel Stefánsson einn þjálfara Storhamar vann úrslitakeppni norska handknattleiksins í kvennaflokki í gær. Storhamar vann Tertnes öðru sinni í úrslitum, 33:30. Þetta er fyrsti sigur Storhamar í úrslitakeppninni í Noregi en liðið varð meistari í fyrsta sinn í vor þegar það vann deildarkeppnina.
- Auglýsing -