Íslandsmeistaratitillinn blasir við Val þriðja ári í röð eftir sjö marka sigur á Haukum í annarri viðureign liðanna í úrslitum Olísdeildar kvenna í handknattleik á Ásvöllum í kvöld, 29:22. Valur hefur þar með tvo vinninga en Haukar engan. Liðin mætast í þriðja sinn á Hlíðarenda á mánudaginn. Fer fram sem horfir þarf það ekki að koma í opna skjöldu þótt Íslandsbikarinn fari á loft eftir viðureignina.
Haukar voru marki yfir í hálfleik, 13:12, eftir að hafa leikið afar góðan varnarleik og haldið aga í sóknarleiknum.
Leikmenn Vals mættu sem grenjandi ljón til leiks í síðari hálfleik. Liðið skoraði fimm fyrstu mörkin ofan á að Hafdís Renötudóttir varði alla bolta sem á markið komu. Hún dró sjálfstraustið úr Haukaliðinu sem koðnaði niður. Sjálfstraustið hvarf eins og dögg fyrir sólu. Haukum tókst aðeins að skora fimm mörk á fyrstu 20 mínútum síðari hálfleiks.
Valsliðið gekk á lagið og jók forskot sitt jafnt og þétt. Mestur varð munurinn níu mörk áður en Valsliðið slakaði aðeins á klónni síðustu mínúturnar.
Mörk Hauka: Elín Klara Þorkelsdóttir 5/2, Rakel Oddný Guðmundsdóttir 3, Inga Dís Jóhannsdóttir 3, Birta Lind Jóhannsdóttir 2, Alexandra Líf Arnarsdóttir 2, Sonja Lind Sigsteinsdóttir 2, Rut Arnfjörð Jónsdóttir 1.
Varin skot: Sara Sif Helgadóttir 10/1, 29,4%.
Mörk Vals: Elín Rósa Magnúsdóttir 8, Þórey Anna Ásgeirsdóttir 6/2, Lovísa Thompson 5, Thea Imani Sturludóttir 2, Sigríður Hauksdóttir 2, Ásthildur Jóna Þórhallsdóttir 1.
Varin skot: Hafdís Renötudóttir 45,5%.
Tölfræði leiksins hjá HBStatz.
Handbolti.is var á Ásvöllum og fylgdist með leiknum í textalýsingu hér fyrir neðan.