Reykjavíkurborg bauð Evrópubikarmeisturum Vals í handknattleik kvenna til móttöku í Höfða á fimmtudaginn í tilefni af sigri liðsins í Evrópbikarkeppninni helgina áður. Valur varð þar með fyrst íslenskra kvennaliða til þess að vinna eitt af Evrópumótum félagsliða.
Karlalið Vals ruddi brautina fyrir íslensk karlalið með sigri sínum í Evrópubikarkeppninni fyrir ári. Reykjavíkurborg bauð þá einnig Valsliðinu til móttöku í hinu sögufræga húsi, Höfða.

Heiða Björg Hilmisdóttir borgarstjóri var viðstödd síðari úrslitaleik Vals og spænska liðsins BM Porriño á Hlíðarenda laugardaginn 17. maí. Leik sem Valur vann með eins marks mun, 25:24.
Hér fyrir neðan er hlekkur á Facebook-síðu Vals þar sem margar myndir eru að finna frá móttökunni á fimmtudaginn.