„Það er erfitt að vinna þetta þrjú ár í röð og það með glæsibrag,“ sagði Þórey Anna Ásgeirsdóttir Íslandsmeistari með Val eftir að liðið bætti Íslandsbikarnum í safn sitt á þessari leiktíð með sigri á Haukum í úrslitarimmunni um Íslandsmeistaratitilinn í N1-höllinni á Hlíðarenda í kvöld, 30:25. Þórey Anna hefur verið hluti af Valsliðinu öll árin.
„Þetta hafa verið ótrúleg þrjú ár og við höfum bara orðið betri og betri með hverju árinu,“ segir Þórey Anna sem loksins sér fram á frí eftir langan og strangan vetur með Val í keppni hér innanlands og í Evrópu auk landsleikja.
„Þetta hefur verið rosalegur vetur en að sama skapi skemmtilegur þegar vel gengur,“ sagði Þórey Anna sem viðurkenndi að hún og samherjar finni fyrir þreytu og hafi þess vegna lagt allt í sölurnar til þess að vinna leikinn í kvöld og binda þar með enda á einvígið.
„Okkur langaði að klára þetta með stæl og sýna þau gæði sem við höfum. Það tókst,“ sagði Þórey Anna Ásgeirsdóttir í samtali við handbolta.is.
Lengra viðtal við Þóreyju Önnu er að finna í myndskeiði hér fyrir ofan.
Olísdeild kvenna – fréttasíða.