Ísland tryggði sér sæti í milliriðlum eða átta liða úrslitum Evrópumóts karla 19 ára og yngri í dag með miklum vinnusigri á Serbum, 31:30, í lokaumferð A-riðils keppninnar. Íslenska liðið mætir þar með Spánverjum og Svíum í átta liða úrslitum á þriðjudag og á miðvikudag. Serbar voru marki yfir í hálfleik, 14:13.
Mikil vinna og orka fór í leikinn í dag enda mátti vart á milli sjá milli liðanna í síðari hálfleik þar sem sjaldnast munaði meira en einu marki. Íslenska liðinu tókst að hanga á sigrinum undir lokin en víst er að það var tæpt. Heimir Ríkharðsson tók leikhlé í stöðunni 31:30, þegar sjö sekúndur voru til leiksloka þegar sókn íslenska liðsins var við það að renna út í sandinn. Í framhaldinu átti Benedikt Gunnar Óskarsson stangarskot. Tíminn sem eftir var nægði Serbum ekki. Þeir sitja eftir með sárt ennið. Það kemur í ljós síðar í dag hvort það verður Slóvenía eða Ítalía sem fylgja íslenska liðinu áfram í átta liða úrslit úr A-riðli.
Íslensku strákarnir áttu í erfiðleikum í upphafi. Illa gekk að verjast löngum og afar þunglamalegum sóknum Serbar sem lék hrútleiðinlegan handknattleik. Einnig fengu þeir að því er virtist nægan tíma til að leika nánast út það óendanlega. Hávaxnar skyttur hnoðuðust inn í vörnina. Á móti kom að nokkur upplögð tækifæri runnu Íslendingum úr greipum í sóknarleiknum. Staðan eftir stundarfjórðung var 10:5, Serbum í hag.
Íslenska liðið vann sig þó jafnt og þétt inn í leikinn á seinni helmingi fyrri hálfleiks og tókst loks að minnka muninn í eitt mark þegar Þorsteinn Leó Gunnarsson skoraði tólfta mark Íslands, 13:12, þegar fimm mínútur voru til hálfleiks.
Upphafskafli Íslendinga í síðari hálfleik var mjög góður. Kristófer Máni Jónasson kom Íslandi yfir, 16:15, með marki eftir hraðaupphlaup og Símon Michael Guðjónsson fylgdi í kjölfarið með öðru hraðaupphlaupsmarki, 17:15.
Serbar gáfust ekki upp og um miðjan síðari hálfleik var leikurin í járnum, hvort lið hafði skorað 21 mark. Eftir það var leikurinn í járnum þar til tvær mínútur voru til leiksloka að íslenska liðið komst tveimur mörkum yfir, 30:28. Serbar reyndu hvað þeir gátu allt til leiksloka. Þeir léku maður á mann í vörn en allt kom fyrir ekki. Íslendingum tókst að halda forystu og vinna leikinn. Andri Már Rúnarsson skoraði 31. og síðasta markið. Serbar megnuðu aðeins að minnka muninn í eitt mark.
Andri Már var valinn besti maður Íslands í leiknum.
Mörk Íslands: Andri Már Rúnarsson 6, Guðmundur Bragi Ástþórsson 6, Kristófer Máni Jónasson 5, Símon Michael Guðjónsson 5, Arnór Ísak Haddsson 4, Þorsteinn Leó Gunnarsson 4, Brynjar Vignir Sigurjónsson 1.
Brynjar Vignir Sigurjónsson varði fimm skot og Adam Thorstensen tvö.