„Til þess að eiga góðan sóknarleik gegn Val þá þarf boltinn að komast á markið. Það tókst okkur alltof sjaldan að þessu sinni, meðal annars töpuðum við boltanum að minnsta kosti fimmtán sinnum. Fyrir vikið tókst okkur eiginlega aldrei að komast í vörn og þegar það tókst þó þá voru Valsmenn varla klukkaðir, hvað þá meira,“ sagði Kristinn Björgúlfsson, þjálfari karlaliðs ÍR, eftir 19 mark tap fyrir Val, 43:24, í annarri umferð Olísdeildar karla í Origohöllinni í kvöld.
„Því miður sást ekki mikið af því í þessum leik sem við ætlum okkur að standa fyrir á keppnistímabilinu. Við höfum átt erfiða viku með menn inn og út úr sóttkví og í meiðslum. Þótt það sé ekki afsökun þá hefur allt sín áhrif.
Kannski er þetta líkar bara munurinn á dýrasta og ódýrasta liðið Olísdeildarinnar,“ sagði Kristinn ennfremur.
ÍR-ingar söknuðu fyrirliða síns, Úlfs Kjartanssonar, að þessu sinni. Kristinn sagði Úlf vera slæman í baki og ekki getað leikið með að þessu sinni. „Úlfur er lykilmaður hjá okkur og það er ekki einfalt að fylla hans skarð, en fjarvera hans skýrir samt sem ekki allt það sem vantaði upp á í leik okkar,“ sagði Kristinn Björgúlfsson, þjálfari karlaliðs ÍR í samtali við handbolta.is í Origohöllinni í kvöld.