Íslenska landsliðið í handknattleik karla, skipað leikmönnum 19 ára og yngri, tapaði fyrir Svíum í leiknum um sjöunda sætið á Evrópumótinu í Króatíu í morgun, 26:24. Jafnt var í hálfleik, 11:11. Þar með hefur Ísland lokið keppni á mótinu og hafnar í áttunda sæti af 16 liðum og er öruggt um sæti í lokakeppni EM 18 ára landsliða sem fram fer að ári liðnu.
Íslensku piltarnir byrjuðu illa í morgun og voru undir, 7:2, eftir um stundarfjórðung. Í kjölfar leikhlés urðu pólskipti á leik liðsins. Það lokaði betur vörninni og sóknarleikurinn varð áræðnari. Jafnt og þétt unnu íslensku piltarnir upp forskot Svía og tókst að jafna metin, 11:11, skömmu fyrir hálfleik. Piltarnir voru klaufar að vera ekki yfir í hálfleik því þeir fengu boltann í þrígang í þeirri stöðu á síðustu mínútu verandi tveimur mönnum fleiri. Þeim tókst ekki að færa sér stöðuna í nyt.
Fyrstu 20 mínútur eða þar um bil í síðari hálfleik voru framhald af lokakaflanum í fyrri hálfleik. Íslensku piltarnir voru með tögl og hagldir. Þeir náðu ítrekað tveggja marka forskoti, síðast 20:18. Þá kom slæmur kafli þegar liðið var manni færra. Svíar skoruðu fjögur mörk í röð og komust yfir, 22:20. Þrátt fyrir vasklega framgöngu í blálokin tókst íslensku piltunum ekki að vinna upp forskotið, jafna metin og tryggja sér vítakeppni.
Benedikt Gunnar Óskarsson var valinn besti maður Íslands í leiknum. Er það í annað sinn á mótinu sem hann hreppir það hnoss.
Mörk Íslands: Benedikt Gunnar Óskarsson 7, Símon Michael Guðjónsson 4, Andri Már Rúnarsson 3, Gauti Gunnarsson 3, Jóhannes Berg Andrason 3, Andri Finnsson 2, Þorsteinn Leó Gunnarsson 2.
Varin skot: Adam Thorstensen 12/2.
Fylgst var með leiknum í beinni texta- og stöðuuppfærslu á handbolta.is en hana getur að líta hér fyrir neðan.