- Auglýsing -
- Helle Thomsen nýráðin þjálfari danska kvennalandsliðsins í handknattleik er óvænt hætt störfum hjá rúmenska meistaraliðinu CSM Búkarest. Þegar Thomsen var ráðin landsliðsþjálfari Danmerkur fyrr á þessu ári er Jesper Jensen lét af störfum þá var hún með klásúlu í samningi sínum við danska handknattleikssambandið um að hún mætti ljúka starfssamningi sínum hjá rúmenska liðinu. Í gær var hinsvegar tilkynnt að Thomsen hafi lokið störfum hjá CSM og gæti þar með helgað krafta sína danska landsliðinu.
- Ekki var greint frá því hver taki við að Thomsen hjá CSM. Hún hafði verið ár í starfi.
- Spánverjinn Raul Alonso er nýjasti kandídatinn sem nefndur er til sögunnar sem næsti þjálfari þýska liðsins Leipzig og þar með eftirmaður Rúnars Sigtryggssonar sem tók pokann sinn um miðjan síðasta mánuð. Alonso, sem starfaði um skeið hjá HC Erlangen, er nú þjálfari Eurofarm Pelister, meistaraliðs Norður Makedóníu.
- Áður hafa Daninn Nicolej Krickau og Svíinn Oscar Carlén verðið nefndir til sögunnar í þjálfarastólinn hjá Leipzig.
- Danski landsliðsmaðurinn Aaron Mensing hefur framlengt samning sinn við MT Melsungen til næstu þriggja ára. Mensing sleit hásin snemma í vor en vonir standa til þess að hann verði klár í slaginn aftur með liðinu síðla í haust eða fljótlega í byrjun vetrar.
- Egypski handknattleiksmaðurinn Abdelrahman Abdou fylgir danska þjálfaranum Stefan Madsen frá egypska meistaraliðinu Al-Ahly til franska meistaraliðsins PSG í sumar. Madsen hætti þjálfun Al-Ahly í vor. Abdou er 29 ára gamall landsliðsmaður og vinstri skytta. Hann skrifaði undir eins árs samning við Parísarliðið.
- Danska meistaraliðið Aalborg Håndbold hefur yfirburði meðal liða í Danmörku þegar kemur að aðsókn á kappleiki. Að jafnaði mættu 5.216 áhorfendur á hvern leik liðsins á síðustu leiktíð. Fyrra met félagsins var frá leiktíðinni 2023/2024, 5.145. Eins og gefur að skilja færir þessi fjöldi félaginu miklar tekjur umfram önnur lið í Danmörku en fá íþróttahús í landinu taka mikið fleiri áhorfendur en að hámarki 2.500 manns.
- Ekki aðeins hefur Aalborg Håndbold miklar tekjur af miðasölu heldur einnig af sölu búninga og veitinga á kappleikjum.
- Auglýsing -